21.08.1917
Neðri deild: 39. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1602 í B-deild Alþingistíðinda. (1533)

164. mál, tekjuskattur

Frsm. (Gísli Sveinsson):

Þessi athugasemd hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) er alveg út í hött. Þótt svo sje, að bankastjórn sje skylt að gefa skattanefnd skýrslu, þá er henni ekki skylt að gera það um annað en það, sem hún veit, en þar með er ekkert sagt, hve mikið hún veit. Nú er það víst, að bankastjórnin hlýtur að vita mikið um þessi efni. Fyrst og fremst veit hún um alla þá, sem eiga bækur hljóðandi á nafn. Og hún veit meira en það. Um það efast enginn, og það er ætlast svo til, að hún gefi það upp, sem hún veit, annað ekki. Hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) spurði um það, hve lengi jeg hjeldi að það stæði, þangað til almenningur breytti um og setti bækur, sem hljóðuðu upp á nafn, á númer.

Þá komum við einmitt að þessu, hversu mikið bankastjórnin veit. Jeg trúi því ekki fyr en jeg tek á, að hún viti ekki í mörgum tilfellum, hvaða nafn tilheyrir hverju númeri, eða hafi tilheyrt, þótt breytt hafi verið, enda sýna bækur bankans það. Og mjer er kunnugt um það, þótt ekki sje það siður hjer, að annarsstaðar, við erlenda banka, tíðkast, að þótt bókin hljóði upp á númer, þá er jafnframt krafist nafns og það fært í bækur, þótt því svo sje haldið alment leyndu. Þar vita því bankamenn um öll nöfn, þótt aldrei nema bækurnar sjeu númeraðar.