12.09.1917
Efri deild: 55. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1643 í B-deild Alþingistíðinda. (1564)

164. mál, tekjuskattur

Magnús Kristjánsson:

Jeg vil vekja athygli hæstv. forseta á því, að þm. eiga fullan rjett á því að taka tvisvar til máls við hverja umræðu. (Forseti: Náttúrlega). Og það er oft beint nauðsynlegt til þess að skýra málin, og til tjóns að flýta málum ofmikið. Annars er jeg ekki vanur að lengja umræður mjög mikið, og mun ekki heldur gera það nú.

Mjer virtist svo, sem hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) liti að eins á aðra hlið málsins í ræðu sinni, þá hlið, hversu mikið ýmsir hefðu grætt árið 1916, og að sjálfsagt væri að leggja skatt á það, og vill hann ganga svo langt í því efni, að láta lögin ná aftur fyrir sig, en hann gleymir alveg hinni hlið málsins, og það er, að margir af þeim, er mest græddu árið 1916, hafa tapað stórfje í ár, og jafnvel sumir meiru en þeir græddu árið á undan. Dæmi það, er háttv. þm. Ísaf. (M. T.) tók um hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) sjálfan, var því laukrjett, og vil jeg biðja háttv. fjármálaráðherra (S. E.) að athuga það vendilega.

Það er ekki rjett, að við sjeum á móti því, að tekjuskattslögunum sje breytt, en við viljum, að fult tillit sje tekið til þess, að nú stendur alveg sjerstaklega á, og við viljum enn fremur, ef lögin eru samþykt, að þau komi þá að fullum notum; því er það, að jeg vænti þess, að háttv. þm., þrátt fyrir allar áskoranir hæstv. fjármálaráðherra (S. E.), athugi allar ástæður málsins og dæmi svo sjálfir, og taki þá tillit til skaðans, er orðið hefir í ár.

Jeg teldi það heppilegast, að 1., 2., 6. og 7. brtt. á þgskj. 884 og brtt. á þgskj. 902 yrðu samþyktar, og þá fyrst væri sæmilega gengið frá málinu og svo, að þinginu væri ekki til vansæmdar.