14.09.1917
Neðri deild: 60. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1651 í B-deild Alþingistíðinda. (1572)

164. mál, tekjuskattur

Hákon Kristófersson:

Jeg skrifaði undir nefndarálitið á þgskj. 933 með fyrirvara, og átti þar aðallega við breytinguna á sama þgskj. En þar eð háttv. frsm. (G. Sv.) hefir, fyrir hönd meiri hl. nefndarinnar, lýst yfir því, að hann tæki þær brtt. aftur, sje jeg ekki ástæðu til að fara fleirum orðum um málið. En þó vildi jeg geta þess, að jeg er ósamþykkur í öllum aðalatriðum háttv. frsm. nefndarinnar (G. Sv.) og því, er hann hjelt fram í ræðu sinni. Þetta vildi jeg taka fram, svo að ekki væri litið svo á, að hann með ræðu sinni gerði grein fyrir skoðun allrar nefndarinnar.