29.08.1917
Neðri deild: 46. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1653 í B-deild Alþingistíðinda. (1577)

169. mál, aðflutningsbann á áfengi

Pjetur Jónsson:

Fyrir skömmu kom hjer fram í deildinni annað frv. með sama nafni og þetta og í sama formi. Því var vísað frá með rökstuddri dagskrá, sem hljóðaði á þessa leið:

»Samþykt þessa frumvarps er sama sem afnám bannlaganna. En nú eru þau lög orðin til samkvæmt alþjóðaratkvæði, og væri því óhæfa að afnema þau, nema samkvæmt undangenginni almennri atkvæðagreiðslu um málið. Þar sem engin slík atkvæðagreiðsla hefir farið fram, verður deildin að taka fyrir næsta mál á dagskrá«.

Sakir þess, að þessu frv. var vísað frá á þennan hátt, þá finst mjer, að sama eigi að ganga yfir það frv., sem nú liggur fyrir. Það fer líka fram á að nema úr gildi lög þau, sem nú eru, og setja önnur ný í staðinn, og ætti því sama regla að gilda um það og hitt. Hvorugt frv. er í raun og veru um afnám bannlaganna. Frv., sem vísað var frá um daginn, var það ekki, og þetta náttúrlega því síður. Ef nú deildin kemst að annari niðurstöðu um þetta frv., þá tek jeg það sem vott þess, að deildin hafi sjeð sig um hönd og taki aftur sinn fyrri úrskurð í þessu máli,

Af því að jeg nú get búist við, að deildin hagi sjer þannig í þessu máli, að fella það ekki, eins og hitt, þá ætla jeg að taka til máls um. bannmálið. Jeg hefi aldrei á þingi, svo að jeg muni, gefið orð í þetta bannmál, hvorki 1909, þegar bannlögin voru samin, nje heldur á þeim þingum, sem hafa haft það til meðferðar síðan. Þegar frv. kom fram hjer um daginn, vonaði jeg, að það yrði sett í nefnd, og að jeg fengi ástæðu til að taka til máls við síðari umræður þess. En svo fór, að mjer var varnað máls, því að málinu var vísað frá, áður en mjer gæfist kostur á að kveðja mjer hljóðs.

Tilgangur minn er ekki sá, að tala eingöngu um þetta frv., sem nú liggur fyrir, heldur um bannmálið í heild sinni. Jeg vona, að hæstv. forseti verði ekki ofkröfuharður, þótt jeg tali nokkuð alment um málið.

Þá er fyrst að segja frá afstöðu minni til fyrra frv. Jeg var meðflutningsmaður þess, eins og menn muna. Háttv. 1. þm. N.-M. (J. J.) flutti það, og jeg flutti það með honum, ekki af því, að mjer væri það neitt áhugamál að hreyfa við bannlögunum á þessu þingi. En af því að þegar var búið að hreyfa við málinu, með tveimur frv., sem á undan voru komin fram, og af því að háttv. 1. þm. N.-M. (J. J.) hafði till. í málinu, sem hann vildi koma að, og jeg var að ýmsu leyti samþ. till. hans, þá urðum við sammála um að flytja frv., úr því að komnar voru fram till. þess efnis að herða á lögunum, og taka þannig nýja hlið á málinu til íhugunar. Meðferð deildarinnar á frv. okkar benti á það, að menn álitu, að málið væri flutt með svo mikilli ljettúð, að ekki væri eyðandi orðum að því, eða ástæða til að taka það til yfirvegunar. Þess vegna tek jeg nú til máls. Þetta er eina frv. af þeim eitthvað 110, sem einstakir þm. hafa borið fram hjer í deildinni, sem jeg hefi sett nafn mitt á. Mjer gat því ekki staðið á sama um það, hvernig í það var tekið. Jeg get ekki neitað því, að það særði mig dálítið, og þó einkum það, að hæstv. forsætisráðherra skyldi láta sjer svo sjerstaklega ant um, að einmitt þetta mál, þetta frv., færi ekki lengra. Mjer stendur ekki á sama um það, að menn haldi, að jeg sje svo alvörulítill í athugunum mínum á þeim málum, sem jeg ber fram, að ekki þurfi að taka mig alvarlega. Jeg veit ekki, hvort jeg á að taka þetta svo, að þm. haldi, að jeg sje sjerstaklega alvörulítill um vínbrúkun, eða hagi mjer svo ljettúðugt gagnvart víninu, til eigin nautnar eða á annan hátt, að ekki sje þess vegna mikið á mjer að byggja í því máli. En jeg skal einungis geta þess, að jeg hefi aldrei flutt sterka drykki á heimili mitt. Jeg skil því ekki, að nokkur geti, með alvarlegri íhugun, tortrygt mig um það, að framkoma mín í þessu bannmáli hafi verið á allmikilli athugun og fullri alvöru bygð.

Þá kem jeg að sjálfu bannmálinu. Jeg hefi aldrei hugsað mjer, að bannið í sjálfu sjer væri takmark fyrir nokkurn mann. Jeg heyrði að vísu einn háttv. þm. minnast á bannhugsjónina í ræðu hjer um daginn. Jeg held, að hann hafi tekið svo til orða í ógáti. Bannið sjálft getur ekki verið nein hugsjón, ekkert »ideal«. Jeg hygg, að útrýming áfengisbölsins sje hið verulega markmið bannmanna. En ef tilgangurinn er að útrýma áfengisbölinu úr landinu, þá getur ekki verið neinn ágreiningur milli manna um markmiðið. Um það hljóta allir að vera sammála. Enginn alvörugefinn maður er viljandi á móti því, að stefnt sje að þessu markmiði. Jeg segi viljandi. Menn geta ef til vill verið það af einhverri hrösun eða veikleika, bæði andbanningar og bannmenn, en viljandi er enginn maður á móti útrýmingu áfengisbölsins. Það er einmitt leiðin til þess að ná þessu markmiði, sem ágreiningurinn hefir verið og er um, en ekki markmiðið sjálft. Þessu hafa ýmsir gleymt í deilunni um bannlögin, einkum þó bannmenn. Við, sem á móti bannlögunum höfum staðið, höfum verið stimplaðir sem þjónar — ekki djöfulsins að vísu — heldur Bakkusar. En þetta er ekki rjett. Þeir, sem andmæla bannlögunum, gera það af því, að þeir telja þau ekki heppileg, ekki rjetta leið.

Um leiðina að því að útrýma áfengisbölinu hefir ágreiningurinn verið, og það er þessi ágreiningur, sem hefir greint menn í bannmenn og andbanninga. Nú ber báðum flokkum saman um eitt. Þeim ber saman um það, að bannlögunum sje ekki hlýtt, og jafnframt hitt, að ástandið sje illþolandi, eins og það er. Þetta hefir haft sín áhrif á skoðanir ýmsra fyrri bannmanna. Nú er hægt að nafngreina menn, og það ekki svo fáa, sem voru með bannlögunum fyr, en eru orðnir á móti þeim. Jeg segi ekkert um það, hversu ákafir bannmenn þeir hafa verið, en þeir voru með og eru nú á móti. Það er því vitanlegt, að nú standa hjer uppi 2 flokkar, nokkurn veginn jafnvígir, annar með bannlögunum og hinn á móti. Það er að vísu ekki hægt að segja með fullri vissu um styrkleika þessara flokka, því að menn þekkja ekki hjörtun og nýrun, en víst mun óhætt að segja, að þeir sjeu nokkurn veginn jafnvígir. Ef bygt er á þeirri einu atkvæðagreiðslu, sem fram hefir farið í málinu, þá mun óhætt að telja flokkana jafnvíga. Sjeu taldir allir með, sem urðu bannstefnunni fylgjandi, — ekki bannlögunum, þau voru þá ekki til, — heldur bannstefnunni, eins og hún var prjedikuð um land alt og troðið í fólkið fyrir kosningarnar 1908. Þá voru tæplega 60% af þeim kjósendum, sem atkvæði greiddu, bannmenn, og rúmlega 40% andbanningar. Nú þarf ekki lengi að taka af meiri hlutanum og bæta við hinn, til þess að flokkarnir jafnist. Breytingarnar, sem síðan hafa orðið, munu hafa jafnað flokkana. Fyrst fjellu margir frá strax, þegar þeir sáu, hvernig bannlögin litu út. Menn greiddu ekki atkvæði með lögunum, heldur með stefnunni, og þegar þeir sáu, hve þetta lagabákn varð öfugt og fjarri öllu, sem menn höfðu hugsað sjer, þá kiptu þeir að sjer hendinni. Annað, sem fjarlægði marga frá bannlögunum, var reynslan um vanmátt þeirra til að útrýma áfengisbölinu. Þegar menn sáu, hversu þau voru fótum troðin, hversu fjarri því fór, að þau kæmu að tilætluðum notum, þá hurfu margir fylgismenn laganna frá þeim. Í þriðja lagi er nú að vaxa upp ný kynslóð. Margir nýir kjósendur hafa fengið atkvæðisrjett á þeim 8 eða 9 árum, sem liðin eru síðan atkvæðagreiðslan fór fram. Jeg get ekki betur fundið en að sú kynslóð sje yfirleitt annaðhvort á móti bannlögunum eða þá alveg tilfinningarlaus um það, hvort þau sjeu heppileg eða ekki. Að öllu þessu athuguðu er ekki hægt að segja minna en að líkindi sjeu til, að andbanningar sjeu að minsta kosti jafnvígir hinum. Ef til vill eru þeir fjölmennari, en um það skal jeg ekki þræta. Það kemur ekki svo mikið málinu við.

En þá vil jeg spyrja. Hvaða vit er í því að ætla, að svona lögum verði haldið uppi í svona landi á móti geði helmings þjóðarinnar? Það er ekki til neins að standa undrandi yfir því, hvernig bannlögin eru haldin, þegar andbanningar eru svo að segja æstir upp í það, eða að minsta kosti ertir upp til þess, að vinna á móti lögunum, Það er ekki nema eðlilegur breyskleiki, þó að þeir láti sjer í ljettu rúmi liggja að halda lögunum uppi. Þar með segi jeg ekki, að andbanningar brjóti lögin yfirleitt, en það liggur í hlutarins eðli, að þeir sjeu ljelegir löggæslumenn.

Jeg sje ekki, að bannlögum verði haldið uppi í þessu landi, meðan svona jafnvígir flokkar standa hvor á móti öðrum. Annarhvor eða báðir verða að slaka til, svo að hægt verði að koma á sáttum. Ef hægt væri að koma sjer saman um lög, sem miðuðu að því að útrýma ofdrykkjunni úr landinu, án þess að fara að því með æsingum og ólátum, og ef hægt væri að fá yfirgnæfandi meiri hluta þjóðarinnar til þess að sætta sig við þau lög, þá fyrst er von til, að verulegur árangur fáist. En það er ekki vegurinn til samkomulags, að bannmenn sjeu enn þá að berja höfðinu við steininn og vilji ekki líta við andmælum andbanninga. Það má ef til vill segja, að erfitt sje að finna rjettu leiðina til samkomulags. En það verður að íhuga hana, og hún verður að finnast. Ef við finnum hana ekki, þá gera eftirkomendur okkar það, verði þá ekki komið út í eitthvað enn þá verra.

Eigi sættir að komast á, þá verður að finna einhvern meðalveg. Og hvað var nú frv. okkar háttv. 1. þm. N.-M. (J. J.)? Ekkert annað en bending um leið, sem þingið ætti að taka til íhugunar — bending um meðalveg.