29.08.1917
Neðri deild: 46. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1660 í B-deild Alþingistíðinda. (1580)

169. mál, aðflutningsbann á áfengi

Gísli Sveinsson:

Jeg ætla að segja örfá orð vegna þess, að jeg var svo óheppinn, held jeg megi segja, að koma fyrstur fram með brtt., sem snerti bannlögin. Efni þess frv. var að eins það, að helmingur sekta rynni í sveitar- eða bæjarsjóð þar sem brotið er framið. Jeg er sömu skoðunar og hæstv. forsætisráðherra, að óheppilegt sje að vera að breyta bannlögunum. Það er framkvæmdinni, sem er ábótavant, ef nokkuð er að. Ef nú frv. mitt væri samþykt, skyldi maður ætla, að lögreglustjórar eða sveitarstjórnir gerðu sjer meira far um að koma upp brotum á lögum þessum. Þetta virðist nefndin ekki fallast á, eftir því sem hún kemst að orði í nefndarálitinu.

Sá dómur nefndarinnar er mjer óskiljanlegur, þar sem hún hefir ekki enn komið fram með frv., og það því síður sem hún hefir lýst yfir því fyrir munn framsögumanns, að hún muni ekki koma með nál. um frv. strax. Það getur verið, að nefndin hafi ekki getað stilt sig um að koma fram með álit sitt um þetta á röngum stað, því að ekki eru þessi ummæli nefndarinnar annað en álit hennar á frv.

Annars eru brtt. nefndarinnar, það sem þær ná, yfirleitt sama efnis og brtt. þær, sem áður hafa verið hjer á ferðinni, sumar óheppilegar og sumar óþarfar, og býst jeg við, ef vel liggur á mjer, að koma fram með athugasemdir við þær við 2. umr. málsins.