29.08.1917
Neðri deild: 46. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1661 í B-deild Alþingistíðinda. (1581)

169. mál, aðflutningsbann á áfengi

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Það er ekki rjett hjá háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), að það sje nokkuð óeðlilegt, þótt allsherjarnefnd hafi ekki enn komið fram með álit um frv. á þgskj. 38. Nefndin gat ekki komið fram með hin frv., sem skertu aðflutningsbannslögin, fyr en sjeð er fyrir örlög frv. þess, er hún sjálf flytur. En það get jeg þó sagt háttv. þm. V.-Sk.

(G. Sv.), að nefndin er á einu máli um að fella frv. hans. Það væri ekki eðlilegt, að helmingur sekta rynni í bæjar- eða sveitarsjóði, þar sem landssjóður kostar alla löggæslu til sveita og að mestu í kaupstöðum og kauptúnum.

Hvað snertir það atriði, að lögreglustjórar muni ganga betur eftir að lögin verði haldin, ef þetta yrði að lögum, þá get jeg ekki sjeð neina ástæðu til að halda það. Sveitarstjórnum er sjerstaklega falið að gæta bannlaganna, og jeg sje ekki ástæðu til að halda, að þær myndu frekar gera það, þótt frv. háttv. þm. (G. Sv.) yrði samþ. Það var samkomulag hjá nefndinni að koma fram með frv. það, sem nú er til umræðu. Nefndarmönnunum er að vísu ekki öllum jafnmikið kappsmál, að það nái fram að ganga. En gott myndi þó leiða af samþykt þess, því að væntanlega mundi það koma í veg fyrir ýms leiðustu og verstu brotin á bannlögunum, án þess að það þó gangi svo langt, að það æsi mótstöðu gegn lögunum.