29.08.1917
Neðri deild: 46. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1662 í B-deild Alþingistíðinda. (1582)

169. mál, aðflutningsbann á áfengi

Gísli Sveinsson:

Jeg hefi aldrei ætlast til, frekar en verkast vildi, að nefndin fjellist á frv. mitt, en jeg hafði búist við, að hún afgreiddi það á venjulegan (forml.) hátt með nál. En nú sá jeg, að í greinargerð frv. þess, sem nú er til umræðu, er lagt til, að »það sje felt«. Þetta vil jeg kalla hugsunarvillu hjá nefndinni, en ekki hitt hjá mjer, að ætlast til, að helmingur sekta rynni í bæjar- eða sveitarsjóð. Landssjóður borgar sveitarstjórnum ekkert fyrir hjálpina við að halda bannlögunum uppi, og væri alls ekki óeðlilegt, að helmingur sekta t. d. kæmi á móti þeirri hjálp. Ýms svipuð ákvæði eru til í löggjöf vorri, og það jafnvel ákvæði, sem snerta áfengislöggjöfina. Annars þarf enginn að halda, að mjer sje þetta svo sjerlega hugleikið, ef þingið, sem virðist hlynt bannlögunum, vill ekki taka þetta ráð. En jeg vildi þó bera fram tillögu, sem miðaði í rjetta átt. Praktiskt sjeð er það mest um vert, að framkvæmd bannlaganna sje góð. Eitt af því, sem þess vegna skiftir bannlögin mestu, er að stofnað sje til reglulegrar tollgæslu, til að byrja með hjer í Reykjavík, eins og annað frv., sem jeg hefi borið fram, fer fram á, því að undir hana hlýtur það auðvitað að falla að hindra innflutning á áfengi.