29.08.1917
Neðri deild: 46. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1664 í B-deild Alþingistíðinda. (1584)

169. mál, aðflutningsbann á áfengi

Einar Arnórsson:

Fyrir nokkru fóru fram umræður hjer í deildinni um forðagæslulög. Eitt ákvæðið í þeim hljóðaði svo, að með þessum lögum væru öll eldri ákvæði um forðagæslu úr gildi numin. Líkt er um þessi lög; frv. endar á því, að hjer með sjeu áður sett lög um aðflutningsbann á áfengi úr gildi numin. Eftir fyrri ummælum háttv. 2. þm. Rang. (E. J.) að dæma mun þetta vera eini kosturinn á þessu frv., og út frá þessu ákvæði, um að afnema bannlögin, hlýtur fyllyrðing hans og háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) að vera hugsuð, um, að deildin þurfi, til að vera samkvæm sjálfri sjer, að afgreiða þetta mál með sama hætti og miðlunar- eða andbanningafrv. um daginn. Á þessum grundvelli einum gæti hún bygt. En nú er sá stóri munur á þessu frv. og andbanningafrv., að hjer eru flest hin sömu ákvæði, sem feld eru úr gildi, sett í staðinn, og þar að auki lítils háttar viðbætir. Með viðbótunum er verið að gera tilraun til að bæta bannlögin.

Í rökstuddu dagskránni var sagt, að ekki mætti afnema bannlögin nema að undangengnu þjóðaratkvæði, þar sem þau voru sett eftir þjóðaratkvæði, en af þessu leiðir alls ekki, að ekki megi endurbæta bannlögin. Það er hin mesta fjarstæða, að það fari að nokkru leyti í bága við þjóðaratkvæði.

Flestu mun annars vera svarað, sem svara þarf. Frsm. (M. G.) hefir svarað aðfinslum við aðgerðir nefndarinnar. Eitt er það þó, sem jeg vildi leiðrjétta hjá háttv. þm. V.-Sk.

(G. Sv.). Jeg þekki ekki nein núgildandi lög, sem snerta áfengislöggjöf landsins, þar sem ákveðið sje, að helmingur sekta renni í sveitar- eða bæjarsjóð, þótt þingmaðurinn segði, að svo væri.