14.09.1917
Neðri deild: 60. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í B-deild Alþingistíðinda. (159)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Umræður eru nú orðnar nokkuð langar. En þó er ekkert við því að segja, ef slíkt gæti orðið til samkomulags milli deildanna. Mjer finst háttv. fjárveitinganefnd hafa gert sitt til, að þetta samkomulag geti komist á. Brtt. hennar eru þannig vaxnar, að það eru líkur til, að þær verði ekki að ágreiningsefni í háttv. Ed. Jeg segi líkur, því að jeg hefi ekkert umboð frá deildinni til að staðhæfa neitt um það. Jeg ætla því að leiða hjá mjer brtt. nefndarinnar, en snúa mjer að brtt einstakra manna.

Fyrst kem jeg þá að brtt. á þgskj. 913. Hún er í þremur liðum, um skrifstofukostnað vegamálastjóra, laun og skrifstofukostnað vitamálastjóra. Hvað 1. liðinn snertir, þá má vísa til þess, sem áður hefir verið tekið fram, að verkfræðingar eru nú færri en áður. Skrifstofustörfin eru engu minni en áður, en færri mönnum á að skipa. Það er því erfitt fyrir þá að anna þessum störfum, án þess að fá sjer aðstoð, og raunar alveg ómögulegt. Einnig má líta á það, að nú eru að mun aukin störf þessarar skrifstofu, með tillögu til þingsályktunar um undirbúning vegamála, sem samþykt hefir verið að fela stjórninni að gera, og að sjálfsögðu lendir að mestu leyti á vegamálaskrifstofunni. Jeg vil því fastlega leggja til, að fjárveitingin til þessa skrifstofukostnaðar verði ekki lækkuð. Sama er að segja um vitamálastjórann. Háttv. deild ætlast til, að veruleg rannsókn verði gerð viðvíkjandi vitabyggingum þeim, sem fyrir liggur að gera. Þótt þessi rannsókn hvíli ekki beint á skrifstofunni, þá þarf þó hennar afskifta að einhverju leyti.

Næst kem jeg að brtt. á þgskj. 926, um laun handa erindreka Fiskifjelagsins erlendis. Háttv. þm. Dala. (B. J.) hefir tekið það fram, að þessi fjárveiting er af skornum skamti, og má síst af henni klípa. Jeg vil benda á það, sem nál. háttv. Ed. ber mjeð sjer, að sama manni er ætlað að vinna líka að einhverju leyti fyrir landbúnaðinn. Þótt hann sje aðallega fyrir sjávarútveginn, þá er þó ekki útilokað, að hann geti kynt sjer ýmislegt, sem landbúnaðinn varðar. Að lækka þessa fjárveitingu um þriðjung finst mjer bera vott um það, að menn vilji ekki veita atvinnuvegunum mikinn stuðning. Háttv. 2. þm. Rang. (E. J.) játaði, að hann legði ekki sjerstaka áherslu á brtt sem flutnm. og þess heldur vona jeg, að háttv. deild hverfi ekki að því ráði að samþykkja hana.

Þá er brtt. á þgskj. 925, sem óvíst er hvort fær að koma til atkvæða. Hún er um fjárveitingu til hússbyggingar á Hallormsstað. Háttv. flutnm., 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), hefir tekið fram það, sem mælir með þessari brtt. En af því að jeg hefi fyrir stuttu komið á staðinn, þá vil jeg láta þess getið hjer, að mjer finst ekki sæmandi að láta við svo búið standa með byggingar á þessum fagra stað. Áður hefir verið veitt fje til að byggja hús á Vöglum í Fnjóskadal, sem líkt er ástatt með og þetta, þótt húsum þar væri ekki eins illa farið og hjer er. Jeg leyfi mjer því að mælast til, að brtt. verði ekki feld.

Þá er ástæða til að fara nokkrum orðum um brtt. á þgskj. 916, um Öxnadalsveginn. Víðar mun nú jafnmikil nauðsyn á vegarlagningu eins og þarna. Það vita þeir, sem farið hafa þjóðveginn alla leið frá Reykjavík og norður í Þingeyjarsýslu. Þó mun full nauðsyn á, að þessi brautarkafli sje lagður, til þess að akfæri vegurinn, sem búið er að leggja, komi að tilætluðum notum. Háttv. framsm. fjárveitinganefndar (M. P.) sagði, að heimfæra mætti þennan veg undir atvinnufyrirtæki, sem ráðist væri í vegna dýrtíðarinnar. Það skiftir ekki miklu máli, ef þetta verk kemur til framkvæmda, hvort það stendur í fjárlögunum eða ekki. Og jeg vona, að það komi á einhvern hátt til framkvæmda á næsta fjárhagstímabili.

Jeg læt mig því engu skifta, hvernig fer um þessa brtt. En það eru sjerstaklega brtt. á þgskj. 923 og 926, sem mjer þætti illa farið ef samþ. yrðu.