03.09.1917
Neðri deild: 50. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1672 í B-deild Alþingistíðinda. (1592)

169. mál, aðflutningsbann á áfengi

Pjetur Ottesen:

Háttv. frsm. allsherjarnefndar (M. G.) hefir skýrt rjett og nákvæmlega frá þeim brtt., er nefndin kom sjer saman um. En viðvíkjandi 6. gr. frv. háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) og þeirra fjelaga skýrði hann ekki alveg rjett frá. Það er ekki alveg rjett, að allir nefndarmenn litu sömu augum á þá grein. Jeg vildi gjarnan halda henni, en til samkomulags við háttv. meðnefndarmenn mína um önnur atriði gekk jeg inn á að sleppa henni. Jeg tel sem sje mjög óheppilegt, að sú grein komst nokkurn tíma inn í bannlögin, og þarf jeg ekki að fara út í það frekar.

Vil jeg þá að eins snúa mjer að brtt. og minnast fyr á þá síðari, um þá, er láta sjá sig ölvaða á almannafæri, og í sambandi við þær segja nokkur orð alment um málið, því að jeg hefi ekki haft tækifæri til að tala um það áður.

Vitanlega hefir eftirlit með bannlögunum reynst allörðugt, og liggja til þess ýmsar orsakir, er rekja má á ýmsa vegu. Þegar bannlögin gengu í gildi, var víndrykkja allmikil í landinu. Því var altaf við því að búast, að drykkfeldir og nautnasjúkir menn mundu fyrst í stað neyta allra bragða til að svala fýsnum sínum og smygla víni inn í landið. Af þessu hefir það aftur leitt, að einstöku menn hafa, að sögn, legið á því lúalagi að smygla inn víni, og »spekúlerað« með því í drykkjugirnd náungans.

Tolleftirlitið er ófullkomið hjer á landi.

Það hefir og leikið mjög á tveim tungum með það, hversu sumir lögreglustjórar hafi verið eftirgangssamir með það að gæta bannlaganna. Þeir hafa sjálfsagt allmiklar málsbætur, en því verður ekki á móti mælt, að allmisjafnlega hefir lögreglustjórunum tekist í þessu efni.

Svo er og eitt ótalið enn, sem sje það, að í landinu er flokkur manna, sem frá öndverðu hefir verið mjög andstæður bannlagastefnunni, og er það síst á þá menn logið, suma hverja, þótt sagt sje, að þeirra starf hafi lítt að því lotið að glæða virðingu manna fyrir bannlögunum.

Þegar alls þessa er gætt, er það síst að undra, þótt nokkuð hafi bannlögin brotin verið. Svo hefir það og komið í ljós við starfrækslu laganna, að ýmsar glompur hafa reynst á þeim, er lögbrjótarnir hafa snuðrað uppi. Þessar glompur hefir að sjálfsögðu þurft að bæta. Þetta er svo sem ekkert einsdæmi með bannlögin. Svo er það yfirleitt með öll lög og lagasetningar. Hversu vel sem til þeirra er vandað og hversu vel sem þau eru huguð í byrjun, þá leiðir reynslan það oftast í ljós, að ýmislegt má betur fara, og þá er auðvitað sjálfsagt að kippa því í lag.

Á bannlögunum hafa verið gerðar allmiklar breytingar, sumar til bóta, en sumar aftur til hins gagnstæða.

Nú hefir reynslan sýnt, að breyta þarf lögunum að nokkru, og er því síst að undra, þótt þeir, sem ant er um bannlögin, komi fram með þær breytingar á þeim, er þeir álíta að til bóta horfi. Ein meðal þeirra sjálfsögðustu breytinga, sem gera þarf á lögunum, er einmitt sú breyting, er hjer um ræðir. Hún er nauðsynleg af því, að 13. gr. bannlaganna, sem um þetta hljóðar, hefir alls ekki reynst fullnægjandi.

Þegar menn hafa átt að fara að gera grein fyrir því hjá lögreglustjóra, hvar þeir hafi fengið það áfengi, sem þeir eru ölvaðir af, þá hafa þeir getað komið við ýmsum undanbrögðum. Komist þetta ákvæði inn í lögin, er fyrir það girt. Því er þetta ákvæði beinlínis nauðsynlegt í lögunum. Auk þess ættu þau sektarákvæði, sem hjer um ræðir, að vera allmikil trygging fyrir því, að menn hefðu sig mikið í frammi á almannafæri ölvaðir, svo að hneyksli ylli. En í bannlandi er það óneitanlega stórhneyksli, að menn skuli vera að slagsa blindfullir á almannafæri. Mönnum á ekki að haldast það uppi að fara svo að, því að það hlýtur stórum að brjóta í bág við velsæmistilfinningu þjóðarinnar og virðingu manna fyrir því, að haldin sjeu landsins lög.

Þá skal jeg snúa mjer að fyrri brtt., sem fer fram á það, að niður falli það ákvæði í bannlögunum, að íslenskum fólksflutningaskipum megi veita undanþágu með að hafa vín til sölu eða neyslu milli landa.

Þetta undanþáguákvæði stríðir alveg á móti hugsun og stefnu bannlaganna. Eðlilegast og sjálfsagðast, að á íslenskum skipum gildi í þessu falli sömu lög og reglur sem í landinu sjálfu. Það sýnir, að það fylgir hugur máli hjá þjóðinni, og hún veit, hvað hún vill, og að henni er alvara að stíga sporið sem fylst í þessu máli að unt er. Reynslan hefir sýnt það, að um gagnsemi bannlaganna fyrir landið þarf ekki að efast, og því sjálfsagður hlutur, að þeim lögum sje beitt svo langt, sem íslenskt valdsvið nær.

Þá mintist háttv. frsm. (M. G.) á brjef Eimskipafjelagsstjórnarinnar, þar sem því er haldið fram, að Eimskipafjelagið geti beðið halla við það, ef þessu ákvæði sje kipt út úr lögunum.

Jú, það er alveg rjett, að allsherjarnefndinni hefir borist þetta brjef, og að þetta er að vísu álit Eimskipafjelagsstjórnarinnar eða meiri hluta hennar. Meiri hluta hennar segi jeg, af því að mjer er um það kunnugt, að formaður Eimskipafjelagsins, Sveinn Björnsson, er á gagnstæðri skoðun og meðstjórnarmenn hans í þessu, þótt hann beygði sig fyrir meiri hlutanum og skrifaði undir áminst brjef.

Sveinn Björnsson er eindregið þeirrar skoðunar, að hjer sje engin hætta á ferðinni fyrir Eimskipafjelagið. Jeg tek þetta fram af því, að á það var minst, og með fullu leyfi umgetins manns.

Jeg er sannfærður um það, að það sje með öllu ástæðulaust að vera að halda því fram, að hjer sje um þann tekjumissi að ræða fyrir Eimskipafjelagið, eða hvaða íslenskt skipafjelag sem væri, sem í nokkurn máta getur rjettlætt það principsbrot á bannlögunum, sem með þessari undanþágu er framið, og þá erfiðleika, sem það á ýmsan veg hefir í för með sjer fyrir gæslu bannlaganna.

Það má vel vera, að einstöku óregluseggir kysu heldur að ferðast á milli landa með þeim skipum, þar sem alt flóir út í brennivíni, en þess ber líka að gæta, að jeg er þess fullviss, að fjöldi manna kysi miklu heldur að ferðast einmitt með þeim skipum, þar sem ekkert vín er haft um hönd. Og þeim mönnum fjölgar altaf, ekki einasta hjer á landi, heldur einnig í nágrannalöndunum.

Bannstefnan íslenska er að verða öðrum til fyrirmyndar.

Íslendingar eru hjer brautryðjendur.

Nytsemi og heilbrigði bannstefnunnar hefir snortið nágrannaþjóðirnar.

Víða hefir bryddað á allstækum hreyfingum í þessa átt.

Menn hafa einmitt á þeim hörmungatímum, sem nú standa yfir, komist til sannleikans viðurkenningar um gildi og nytsemi þessara stefnu. Það sýnir órækast, hversu málefnið er gott, og að þetta er virkilegt framtíðarmál.

Því var óspart haldið fram í þinginu 1909 af andstæðingum bannlaganna, að eftir að þau lög kæmust á mundi enginn útlendingur líta við því að ferðast hingað.

Það hefir nú sýnt sig, að þessi ástæða var ekkert annað en hjóm og reykur. Svo mun það og reynast í þessu efni hvað skipin snertir.

Jeg skal svo ekki fara fleirum orðum um þetta að svo stöddu, en vona, að deildin taki brtt. mínum vel. Verði þær samþyktar, þá stuðla þær að því tvennu, að gera eftirlitið með bannlögunum mun auðveldara, og að þjóðin njóti þar af leiðandi fyr en ella fullkomlega þeirra gæða, sem bannlögin hafa í sjer fólgin.