21.08.1917
Neðri deild: 39. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í B-deild Alþingistíðinda. (16)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Framsm. fjárveitinganefndar (Magnús Pjetursson):

Það er ekki ætlun mín, þótt jeg standi hjer upp, að fara að blanda mjer inn í »eldhúsumræðurnar«. Það voru að eins nokkur orð hjá hæstv. fjármálaráðherra (B. K.), sem komu mjer af stað. Hann gat þess í ræðu sinni, að stjórnin hefði ekki getað búist við því, að fjárveitinganefnd mundi komast að svipaðri niðurstöðu og raun er á orðin, og kvað slíkt ekki hafa átt sjer stað áður. Jeg ætla mjer ekki að fara út í þá sálma að svo stöddu, enda er það ekki siður við fyrstu umræðu. En jeg vona, að mjer takist við 2. umr. þessa máls að færa rök fyrir því, hvernig fjárveitingan. átti ekki annars kostar en koma með fjöldann af sínum breytingum, vegna þess, hvernig fjárlagafrumv. var úr garði gert frá stjórninni. Út í þetta er ekki hægt að fara, nema nefna tölur og greinar, og geymi jeg mjer það því til 2. umr. Þar á það heima.