03.09.1917
Neðri deild: 50. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1696 í B-deild Alþingistíðinda. (1600)

169. mál, aðflutningsbann á áfengi

Frsm. (Magnús Guðmundsson); Jeg ætla að eins að svara háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) nokkrum orðum. Hann talaði mikið um það ákvæði, að rannsaka mætti farangur farþega, og fanst það alveg óhafandi. Það verður að setja það ákvæði í það samband, sem það stendur í í bannlögunum, og skal jeg þá lesa þann kafla þeirra, með leyfi hæstv. forseta. Þar stendur svo:

»Rannsaka skal lögreglustjóri jafnan á fyrstu höfn, hvort áfengi er í skipi, hvort heldur skipið er íslenskt eða erlent, og getur í því skyni opnað hirslur skipverja og farþega og aðra staði í skipi, eftir því sem þörf þykir«.

Það hefir staðið í lögum síðan 1909, að lögreglustjóri skuli rannsaka, hvort áfengi er í skipi, en hvernig á hann að framkvæma þá rannsókn, ef hann má ekki opna hirslur skipverja og farþega? Hvaða ástæða er til að gera honum að skyldu að kveða upp dómsúrskurð í hverju einstöku tilfelli? Hvort þetta ákvæði stendur í bannlögum eða í tolllögum er alveg sama, því að komi það upp við rannsókn, að aðrar tollskyldar vörur en áfengi sje um borð, er lögreglustjórinn skyldugur til að taka það, eða dettur háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) í hug, að nokkur lögreglustjóri mundi taka vínflösku, sem smygla hefði átt inn, en skilja eftir t. d. vindlakassa, sem hann yrði var við og líka hefði átt að smygla inn?

Þá sagði háttv. þm. (G. Sv.), að óþarfi væri að hækka sektir á skipstjórum, ef þeir gæfu ranga skýrslu, fyrst að rannsaka á skipin, en skýrslan er heimtuð af því, að það er ómögulegt að rannsaka alla staði í skipum, og refsingin er lagt til að hækki, af því að nefndinni var kunnugt um, að skipstjórum hefir ekki verið refsað eftir 144. gr. hegningarlaganna, þótt þeir hafi gefið ranga skýrslu, og um tvöfalda refsingu er það að segja, að hún hefir lengi verið í gildi í Þýskalandi. (G. Sv.: Jeg sagði líka, að það væri prússneskt fyrirkomulag). Nefndin gengur út frá því, að með þessum breytingum sje bannlögunum komið í það horf, að ekki þurfi að breyta þeim meir, og að nú geti þau reynt sig til hlýtar. Það gefur að skilja, að það er þægilegra að hafa þau í einu lagi en í mörgum hlutum.