05.09.1917
Neðri deild: 52. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1700 í B-deild Alþingistíðinda. (1604)

169. mál, aðflutningsbann á áfengi

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Það eru komnar hjer fram nokkrar brtt., sem jeg þarf að minnast á með nokkrum orðum.

Það er þá fyrst þess að geta að hjer er ein brtt., sem fer fram á að afnema þetta svokallaða konsúlabrennivín. Nefndin hefir ekki haft tíma til að tala sig saman um hana, og jeg get því ekki sagt nema fyrir mig, að jeg er henni mótfallinn. Jeg tel enga ástæðu til að taka vínið af þessum mönnum, því að mjer er ekki kunnugt um, að þeir hafi misbrúkað þá heimild, sem þeir hafa, enda þinginu ekki vansalaust að taka aftur það leyfi, sem það hefir einu sinni veitt.

Aftur á móti get jeg fallist á aðra brtt. háttv. þm. Stranda. (M. P.), en ekki hina. Jeg get ekki fallist á, að lögreglustjórum sje ekki heimilt að opna hirslur manna, úr því að þeim er gert að skyldu að rannsaka, hvort áfengi er í skipi. En með hinni get jeg verið, að lögleiða ekki fangelsi fyrir aðra en þá menn, sem gera sjer að atvinnu að brjóta lögin.

Þá er hjer enn ein brtt. frá háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), um að fella burt 14. gr. frv., og leiðir það af sjálfu sjer, eftir því sem jeg sagði við 2. umr., að jeg er henni meðmæltur.

Aftur á móti er jeg á móti brtt. hv. þm. Dala. (B. J.), um að taka ekki

læknisleyfi af þeim læknum, sem misbrúka heimild sína til að láta menn hafa áfengi, heldur taka af þeim embætti. Það leiðir af sjálfu sjer, að það er engin hegning fyrir þá menn, sem ekkert embætti hafa, enda hefir það staðið í lögunum frá 1909, að taka mætti af þeim læknisleyfi. Verði brtt. samþykt, er þeim læknum, sem embætti hafa, hegnt strangar en embættislausum læknum, en það getur ekki talist rjett.