05.09.1917
Neðri deild: 52. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1701 í B-deild Alþingistíðinda. (1606)

169. mál, aðflutningsbann á áfengi

Sveinn Ólafsson:

Jeg vildi einungis segja fáein orð með brtt. minni.

Það þykir líklega sitja illa á mjer, gömlum bindindismanni, að flytja hana, þar sem hún fer fram á það að sýkna þá og sekta ekki, sem ölvaðir hittast á almannafæri. Það vita nú allir, að framkvæmd þessara laga er enn í bernsku, og má því ekki leggja ofmikla áherslu á það, sem er minni háttar, en á meðal þess tel jeg þetta vera, Því er svo farið í þessu máli, sem um kristnitökuna árið 1000, að sjá verður gegnum fingur við afvegaleiddan aldaranda.

Jeg lít nefnilega svo á, að það sje ekki eðlilegt að láta sekta þá menn, sem sjást druknir og án óspekta, þegar það er samkvæmt lögum leyfilegt að eiga vín, og jeg held, að rjettarmeðvitund almennings sje gagnstæð þeirri meðferð ölvaðra manna, sem eigi raska friði.

En svo er önnur hlið á þessu máli. Það leikur sem sje grunur á, að frv. í heild sinni fái ekki nægilegt fylgi, ef þetta ákvæði verður samþykt, og þótt slík sektarákvæði og þetta væri rjettmætt, þar sem bannstefnan er landlæg orðin, þá eru þau tæpast tímabær hjer, og eigi ólíklegt, að þau yrðu misbrúkuð. Það er ekki heldur altaf auðvelt að sjá, hvort menn eru ölvaðir eða ekki. Auk þess er merking orðsins »ölvaður« teygjanleg. Jeg mælist því eindregið til þess, að brtt. mín verði samþykt; með henni held jeg að voru góða málefni sje á þessum tíma unnið þarft verk. Jeg er 30 ára gamall bindindismaður og vona því, að enginn gruni mig um græsku, þó að jeg hafi borið fram þessa till., sem vitanlega er ekki í anda áköfustu bannvina.

Um leið vil jeg nú lýsa afstöðu minni til brtt. á þgskj. 781, frá hv. þm. Stranda.

(M. P.). Hún er í tveim liðum, og er jeg á móti báðum. Fyrri liðurinn lýtur að því að banna eða óheimila rannsókn á farangri farþegja. Það er með öllu ástæðulaust; þessi rannsókn er fyrir löngu komin inn í löggjöf grannþjóðanna, eins og allir þeir þekkja, sem komið hafa út fyrir pollinn.

Seinni liðurinn lýtur að breytingu á 16. gr., um fangelsishegninguna. Það má að vísu virðast svo, að fangelsi sje ofhörð hegning við bannlagabrotum, en óeðlileg virðist mjer hún ekki við margfalda endurtekningu brotanna. Ef búið er að dæma einhvern í 5000 kr. sekt, eftir 16. gr., fyrir 2. brot, þá virðist ekki óeðlilegt, að hann verði dæmdur í fangelsi næst þegar hann brýtur. Jeg get ekki sjeð, að það eigi að hlífa þeim, sem brjóta hvað eftir annað, á þann hátt, sem þarna er bent til. Af þessum ástæðum mun jeg greiða atkv. á móti báðum liðum brtt. á þgskj. 781.

Þá er brtt. á þgskj. 796 frá hv. þm. Dala. (B. J.). Sjálfur hefir hann talað fyrir till. sinni. Að vissu leyti get jeg verið honum samdóma, en þó hallast jeg fremur að rökum háttv. allsherjarnefndar, að þessi brtt. sje bagaleg, þar sem hún nær að eins til nokkurs hluta þeirra, sem lækningar stunda. Hví skyldu skipaðir læknar eiga að verða ver úti en hinir, sem eru í »lausamensku«. (B. J.: Þeir missa ekki lækningaleyfi, þó að þeir sjeu sviftir embætti.) Þessu atriði er þannig farið, að jeg get ekki greitt því atkv., en sætti mig þó við, að það gangi fram, ef svo vill verkast.

Þá er enn brtt. á þgskj. 801, frá hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.). Hún lýtur að því að banna innflutning hins svonefnda konsúlavíns og er, fljótt á litið, mjög ginnandi fyrir oss. En þar mun vera flagð undir fögru skinni, ef jeg skil skjölin. Það væri ákjósanlegast, að undantekningarnar frá bannlögunum væru sem fæstar, því að tilgangur bannsins er vitanlega að teppa algerlega allan aðflutning áfengis, en sigurinn fæst ekki hjer í einu áhlaupi. Það mun heldur engin ósk hafa komið fram frá konsúlunum um, að undantekning væri gerð vegna þeirra. En nú er einu sinni búið að lögleiða þetta svonefnda konsúlabrennivín, og hefir við það staðið um nokkur ár. Ef það yrði nú felt burt, er jeg hræddur um, að af því mundu leiða deilur og viðsjár, sem gætu gert bannlögunum ógagn. Líklega þykir sú tilgáta mín eigi vingjarnleg, að hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) hafi ekki borið till. fram af umhyggjusemi fyrir bindindismálinu; samt verð jeg að líta svo á, að annað hafi honum til gengið. Hann á nú þess kost að svara fyrir sig og launa lambið gráa.