14.09.1917
Neðri deild: 60. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í B-deild Alþingistíðinda. (161)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Fjármálaráðherra (S. E ):

Jeg hjelt þegar háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) var mitt í ræðu sinni, að það væri eitthvað mikið, sem jeg þyrfti að svara honum, en nú finst mjer það eiginlega vera ekki neitt.

Hann hefir nú á hverju þingi haldið fallegar sparnaðarræður, sem jeg og aðrir eru honum þakklátir fyrir. En honum hefir ekki altaf verið eins gjarnt að fara eftir heilræðum sínum, að spara, þegar um hans eigið kjördæmi er að ræða. Það mun ekki vera til nokkurt eitt kjördæmi, sem lagt hefir verið í jafnmikið fje úr landssjóði. Það má sannarlega segja, að þar hafi verið miljónafyrirtæki á ferðinni, og hinn háttv. þm. (S. S.) hefir ekki verið letjandi þess að ýta þangað miljónunum, í alls konar fyrirtæki, vegi, hafnir og áveitur. Jeg hefi aldrei orðið var við, að hann hafi viljað spara eina einustu krónu, sem átt hefir að renna inn í kjördæmi hans. Jeg er ekki að lasta þetta, því að jeg hefi þvert á móti verið flestum þessum fjárveitingum fylgjandi. En það eru nú einmitt þessir liðir, sem gera útgjöldin í fjárlögunum. Það er náttúrlega gott að vilja ryðja burt smáliðum og algerlega sjálfsagt að skera alla óþarfa liði niður, jafnvel þótt þeir eigi að fara í kjördæmi háttv. þm. (S. S.). En þótt smáliðirnir sjeu feldir, þá dregur það, því miður, svo lítið úr hallanum, sem nú er í fjárlögunum. Jeg vil slá því föstu, að í fjárveitingum, sem snerta hans eigið kjördæmi, vill hinn háttv. þm. (S. S.) ekki spara.

En þetta eru nú að eins almennar hugleiðingar.

Jeg skal þá fyrst snúa mjer að fjárveitingunni til skrifstofukostnaðar sýslumanna, því að það mun aðallega vera sú till., sem háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) átti við, er hann vildi bregða mjer um sóunarsemi á fje landsins, þótt raunar verði ekki sagt, að jeg hafi verið ör á landsfje, þar sem jeg hefi að eins, fyrir stjórnarinnar hönd, verið riðinn við þessa einu fjárveiting á þessu þingi, sem auk þess er upp tekin af stjórninni í samráði við fjárveitinganefndir. En ef hinn háttv. þm. (S. S.) vill líta rólega á málið, þá hlýtur hann að sjá, að þessir embættismenn búa nú sem stendur við mjög ill laun. Meðaltal launa sýslumannanna er 3000 kr.; þar af fara 1000 kr. í skrifstofukostnað, auk kostnaðar við þingaferðir, svo að allir sjá, að þegar eftir eru 1500—1800 kr. nettó af laununum, þá er ómögulegt að lifa af því nú á tímum fyrir þessa embættismenn. En þá er og á það að líta, að þetta eru trúnaðarmenn þjóðarinnar. Er það þá heppilegt fyrir sjálfa þjóðina, að dregið sje um of við þá? Það er litið svo á í öllum siðuðum löndum, að best muni að launa sómasamlega öllum þeim, sem miklar fjárheimtur hafa á hendi. Jeg veit ekki, hvernig háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) tók í frv., sem nú er fyrir skemstu afgreitt frá þinginu, sem sje um skiftingu bæjarfógetaembættisins í Reykjavík. En hitt veit jeg, að hann gerði enga brtt. við það frv., og virðist því ekkert hafa haft við það að athuga, og voru þó laun þar ákveðin 5000 kr. vaxandi upp í 6000 kr. og að auki skyldi greiddur allur skrifstofukostnaður. En hver sanngirni er þá að launa hliðstæðum embættismönnum svo sem nú er gert? Störf þessara manna eru aukin með hverju þingi, en þó mega þeir búa við sultarkjör. Jeg álít þetta óholt fyrir þjóðfjelagið, alveg eins og jeg álít óholt að fjölga embættismönnum, nema knýjandi ástæður sjeu fyrir hendi. Og á móti slíkri óþarfri fjölgun veit þm. (S. S.) ósköp vel að jeg hefi staðið og mun standa. Þess ber að gæta, að embættismenn hætta að líta við slíkum kjörum. Ef þessi kjör haldast, þá verður ekki einn maður til þess að sækja um embættin, með því að ekki verður unt að gegna þeim án þess að safna skuldum, og það á landið að forðast sjálfs sín vegna. Það er undarlegt hjá hinum háttv. þm. (S. S.) að vilja beita harðneskju við menn úti um sveitir, menn, sem hann í sömu embættum hjer í höfuðstaðnum vill launa með 5-6 þús. kr. Hvernig stendur á því? Mega sveitahjeruðin ekki njóta jafnrjettis við Reykjavík? Hann mintist á laun yfirdómaranna. Jeg er því samþykkur, að þau sjeu altof lág, en alveg eins er ástatt um sýslumennina. Og jeg vona því, að menn, þrátt fyrir sparnaðarræðu háttv. 1. þm. Árn. (S. S.), sjái, að þessi uppbót til sýslumanna fyrir skrifstofukostnað er sanngjörn. Þetta hafa líka báðar fjárveitinganefndir þingsins viðurkent, þótt nefndin í þessari háttv. deild leggi til að lækka upphæðina.

Bæði háttv. þm. Stranda. (M. P.) og háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) hafa sagt, að sýslumenn hafi tekjur af landssjóðsversluninni. Það getur verið; jeg hefi ekki rannsakað það. En jeg veit annað, að þessi nýju störf, sem lögð hafa verið á sýslumennina, hafa haft aukinn kostnað í för með sjer fyrir þá, aukið mannahaldið. Jeg get bætt því við, að mjer er kunnugt um, að í Suður-Múlasýslu varð sýslumaðurinn að bæta við hálfum öðrum manni í 2 mánuði vegna þessara starfa einna.

Jeg þarf svo ekki að tala meira um þetta atriði. Jeg býst við því, að deildinni þyki það svo sjálfsagt, að hún samþ. það einróma.

Háttv. 1. þm. Árn. (S. S) mintist á skrifstofustjóra Indriða Einarsson, en þar sem hann í sambandi við þann lið gat þess, að hann vænti, að skipun skrifstofustjórastöðunnar stjórnaðist ekkt af frændsemi, bróðurkærleika, vináttu og slíku, þá veit jeg ekki, hvað hinn háttv. þm. (S. S.) meinar, hvort hann hyggur, að embættaveitingar yfirleitt fari fram eftir slíku, eða hvort hann meinar þetta til mín sjerstaklega, með því að skipun þessa embættis mun einkum heyra undir mig.

Þar sem háttv. þm. (S. S.) gaf í skyn, að hann væri á móti stjórninni, þá verð jeg að furða mig á því, því að jeg veit ekki til, að hann hafi nokkum tíma verið á móti nokkurri stjórn. Hann er ekki svoleiðis maður, háttv. þm. (S. S.)