05.09.1917
Neðri deild: 52. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1717 í B-deild Alþingistíðinda. (1613)

169. mál, aðflutningsbann á áfengi

Einar Jónsson:

Mín orð munu helst hljóða um það, að jeg álít lengri umræður um málið óþarfar; því að það er búið að segja svo mikið um það. Þótt hæstv. fjármálaráðherra

(S. E ) æsi sig nú sem síðast, þá er það ekki til annars en að sanna það, sem jeg sagði þá, að hann gæti aldrei heyrt bann eða brennivín nefnt án þess að verða æstur. Jeg viðurkenni það líka, að konsúla- og læknabrennivínið er glompa á lögunum, en það eru þó lagðar sektir við, ef læknar misbrúka leyfi sitt, sem þeir fengu með lögunum 1915, enda hygg jeg, að þeir noti það leyfi á sanngjarnan og rjettan hátt. Ef læknar væru svo einstrengingslegir, að þeir vildu ekki láta veika menn fá — (E. A.: Pinna) — já, einmitt pinna, þá gæti það verið sama sem að steindrepa þá. Jeg get sannað þetta af sjálfum mjer, því að það hefir komið fyrir, að jeg hefi verið lasinn á þann hátt, að jeg væri nú líklega dauður, ef jeg hefði ekki fengið góðan snaps. Út í þetta atriði ætla jeg ekki að fara frekar, enda þótt jeg gæti nefnt dæmi upp á, hvað sjálfur landlæknirinn hefir orsakað í þessu efni. Það er þess vegna varlega í það farandi að gera ákvæðin svo ströng, að maður geti ekki fengið snaps, ef á liggur, þótt ofsi bannmanna sje mikill. Mitt síðasta svar verður því það, að jeg álít heppilegt að breyta bannlögunum alls ekkert, þótt jeg álíti það langbest að afnema þau strax.

Jeg er svo oft búinn að tala í þessu máli, bæði í sumar og áður, að jeg þarf ekki að segja meira, enda mun enginn ganga grafgötur um að vita það, hvernig jeg muni greiða atkvæði í þessu máli.