05.09.1917
Neðri deild: 52. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1720 í B-deild Alþingistíðinda. (1615)

169. mál, aðflutningsbann á áfengi

Fjármálaráðherra (S. E.):

Háttv. þm. Stranda. (M. P.) lagði áherslu á, að ekki væri skemtilegt að sjá drukna menn á götunum, en sem betur fer hefir það verið sjaldgæft í seinni tíð. (S. St.: Einn rjeðist fullur á mig í gærkveldi.) Það er mjög óheppilegt, ef ráðist er á háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.). Jeg er sannfærður um, að ef bannlögin væru upphafin, yrði ekki sjaldgæft að sjá hjer fulla menn á götunum, en einmitt af því að lögin eru í gildi, kemur það nú sjaldan fyrir. En það er ekki furða, á meðan ekki er lagt meira í löggjöflna en nú er gert, þótt það komi fyrir, að menn sjáist ölvaðir. Jeg er sannfærður um, að ef ákvæðið, sem hæstv. þm. Stranda. (M. P.) vill nema burt, verður látið standa, verður minna áfengi flutt inn og minna drukkið. Háttv. þm. Stranda. (M. P.) segir, að í sinni brtt. felist í raun og veru það sama og í frv., eða sama heimildin, en ef sá skilningur er rjettur, hvers vegna má þá ekki ákvæði frv. standa óbreytt, því að það er þó sannarlega æskilegt, að ákvæði laganna sjeu sem skýrust? Það hefir verið ágreiningur milli lögfræðinganna um, hvort það mætti leggja sama skilning í þessa grein og háttv. þm. Stranda. (M. P.) vill leggja í hana. Þetta nýja ákvæði er því sett til þess að nema allan efa burt. Háttv. þm. Stranda, (M. P.) sagði, að sig furðaði það ekki, að jeg væri hræddur við tundurdufl. Hvort hann hefir meint politisk tundurdufl, það veit jeg ekki, en jeg get sagt honum það, að við svona löguð tundurdufl er jeg ekki hræddur.