05.09.1917
Neðri deild: 52. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1728 í B-deild Alþingistíðinda. (1621)

169. mál, aðflutningsbann á áfengi

Þórarinn Jónsson:

Jeg hefi ekki neina sjerstaka löngun til að taka til máls í þessu máli, því að þótt jeg hafi aldrei álitið bannlögin heppilega ráðstöfun, þá hefi jeg aldrei skipað mjer í flokk þeirra manna, sem skipa sjer í ákveðna andstöðu við lögin. En jeg er eindregið á móti öllum breytingum á lögunum, að svo komnu máli. Þær breytingar, sem fram hafa komið, miða flestar að því að herða á lögunum, og er það að mínu áliti mjög óhagkvæmt. Líka þegar verið er að tala um eftirlitið, þá finst mjer það alveg óhafandi. Það vita allir menn, að eftirlitið getur verið alt öðruvísi en það er, þótt lögunum sje ekki breytt. Það hefir jafnvel

komið fram hjer í umræðunum, að eftirlitinu sje stórum ábótavant, og um það er lögunum kent. Háttv. allsherjarnefnd fjekk mikið af breytingum á bannlögunum til athugunar, í frv. frá háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) og fleiri deildarmönnum. Breytingarnar voru í stórum flyksum í frv., og það er ekki að undra, þótt nefndinni veittist erfitt að vinsa úr þeim. En hinu furðar mig á, hvernig hún ber sig að við það starf. Hún kemur fram eins og meiri háttar skiftaráðandi, sem skiftir breytingunum á milli eftirlitsleysisins og bannmanna. Hún lætur bannmennina fá vínsölumennina til árjettaðrar refsingar, en eftirlitsleysið fullu mennina, eða ölvuðu, sem kallað er á viðfeldnara máli í bannlandi. Hjer hefir verið talað mikið um þessa menn, sem hafi það að atvinnu að selja áfengi ólöglega. Jafnvel hæstv. fjármálaráðherra og fyrverandi bæjarfógeti (S. E.), sem hlýtur að vera þeim hnútum kunnugastur, talar um þá fullum fetum. Jeg heyri á öllum, að þessir menn sjeu til hjer í bænum, ef til vill heilir hópar af þeim, alþektir, jafnvel eins og fógetar eða ráðherrar. En hvernig stendur á, að þessir menn eru ekki kærðir? Er það af því, að refsiákyæði laganna eru ekki nógu hörð? Er verið að bíða eftir því, að sektirnar hækki, til þess að hægt verði að lumbra betur á sökudólgunum? Ef menn halda, að hert refsiákvæði verði til þess að hjálpa til að koma brotunum upp, þá verð jeg að álíta, að það sje ekki rjett hugsað. Eftir því, sem sektirnar eru hærri, kynoka menn sjer fremur við að kæra, þótt þeir viti um brot. Í fjölda mörgum tilfellum gerir mannúðin þar uppreisn gegn framkvæmdinni. Jeg geri ekki mikið úr því, þó að sagt sje í lögunum, að eftirlitsmennirnir geti gert það og það. Það er gagnslaus áhersla, sem enga þýðingu hefir; gæti jeg hugsað mjer, að það yrði að eins til að koma fleirum undir eftirlitsleysið. Þeir myndu komast þar á hornið, þessir vínsölumenn, og gæti skeð, að þeir hefðu þar á milli sín kúfort, sem komist hefði frá borði með flöskum í, þrátt fyrir það, þótt eftirlitsmennirnir mættu opna það og leita í því. Og þó hugsa jeg, að samkomulagið í eftirlitsleysinu yrði þolanlegt. Jeg verð því að leggja áhersluna á það, að bannmenn hafi tekið stefnuna ofsnemma upp. Á hinn bóginn getur þjóðin ekki gengið að því, eins og stendur, að bannlögin verði afnumin. Bannmenn ættu að snúa aftur að þeirri stefnu, sem þeir fylgdu áður, að efla bindindissemi í landinu, láta bannlögin halda sjer, eins og þau eru, en reyna að hafa áhrif á almenningsálitið, svo að menn skilji betur tilgang laganna og læri að halda þau í heiðri.

Jeg get ekki verið með neinu því, sem herðir á lögunum, af því að jeg álít, að ekkert slíkt verði til að stuðla að því, að þau nái betur tilgangi sínum. Jeg vil láta lögin vera óbreytt eins og þau eru. Jeg greiði atkvæði á móti öllum brtt., sem fyrir liggja, líka á móti brtt. háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), af því að með því get jeg stuðlað að falli frv. En jeg vil, að það falli, af því sem jeg nú hefi tekið fram.