05.09.1917
Neðri deild: 52. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1730 í B-deild Alþingistíðinda. (1622)

169. mál, aðflutningsbann á áfengi

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg heyrði ekki vel ummæli háttv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.), en mjer skildust þau hníga eitthvað í þá átt, að einkennilegt sje, að þessir menn, sem. svo ilt umtal hafa hlotið hjer, vínsalamir, skuli ekki verða sektaðir. Þetta sýnir ókunnugleika hins háttv. þm. (Þór. J.). Sannleikurinn er sá, að þessir menn hafa oft og iðulega verið sektaðir, bæði á meðan jeg var bæjarfógeti og áður.

Það er alveg rjett, að eftirlitið er aðalatriðið, en það getur mikið hjálpað eftirlitinu, hvernig lögin eru úr garði gerð, þar á meðal t. d. ákvæði, sem heimilar lögreglustjórum að skoða í hirslur manna, því að það er öldungis gagnstætt hugsun bannlaganna að löghelga hina og þessa staði á skipinu til varðveislu á áfengi. Hækkun sektanna miðar og vafalaust í rjetta átt, því að við það verða leynisalar miklu deigari til að brjóta lögin, en einmitt frá þeim stafar aðalhættan, þessum mönnum, sem beint gera vínsölu að atvinnuvegi. Hitt mun flestum koma saman um, að lítil hætta sje lögunum búin með því, þótt ein og ein flaska slæðist í land með farþegum.

Jeg skal ekki fara út í almennar hugleiðingar, svo sem það, hvort halda beri áfram bindindisstarfsemi. En um það er jeg sannfærður, að þótt lögin sjeu nú og verði enn um hríð nokkuð brotin, þá gera þau samt gagn, og mundu menn skjótlega komast að raun um það, ef þau væru nú afnumin, að ástandið mundi skjótlega versna um allan helming.