14.09.1917
Neðri deild: 60. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í B-deild Alþingistíðinda. (163)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Þórarinn Jónsson:

Jeg ætlaði mjer ekki að taka til máls við þessa umræðu, því að satt að segja vorkenni jeg bæði sjálfum mjer og háttv. deild að sitja undir öllum þessum löngu ræðum. En það var sessunautur minn, hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), sem gaf mjer ástæðu til að leiðrjetta dálítinn misskilning hjá honum. Það var viðvíkjandi brtt. á þgskj. 924.

Háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) tók það fram, að það væri hafður órjettur í frammi gagnvart forgangsrjettarskólunum, ef Hvammstangaskólinn væri tekinn upp í þeirra tölu. Þetta er ekki rjett hjá háttv. þm. (Sv. Ó.). Jeg vil benda honum á það, að aðalstyrkveitingin til þessara skóla er hækkuð frá því sem áður var. Hvammstangaskólinn hafði áður fullar 900 kr., en á eftir þessu að fá 1500 kr. Aðalupphæðin til skólanna hefir hækkað um 500 kr., eða sem svarar því, sem bætt er við Hvammstangaskólann, svo að með þessu er engum gert rangt til, þar sem þeir munu allir fá líkt og áður. Og engin ástæða er til að halda, að skólum muni fjölga svo mjög á þessu fjárhagstímabili, eins og nú lítur út með skólahald.

Þá talaði háttv. þm. (Sv. Ó.) enn fremur um það, að það væru miklu fleiri skólar í Norðlendinga- og Sunnlendingafjórðungi heldur en Vestfirðinga- og Austfirðingafjórðungi, og það væru því aðallega hinir fyrnefndu fjórðungar, sem nytu styrksins, en hinir færu hans á mis. Þetta má vel vera rjett hjá honum, en það eru hjeruðin sjálf, sem eiga sök á þessu, af því að þau hafa ekki stofnað hjá sjer skóla og byrjað að styrkja þá með sínu eigin fje. Það er því ekki hægt að kenna öðrum um þetta en þeim sjálfum, og því síður hægt að segja, að hjer sje nokkrum gert rangt til.

Hins vegar þykir mjer líklegt, að slíkir unglingaskólar muni rísa upp í hverju hjeraði; það er ekki nema tímaspursmál, hve nær það verður. Og þá finst mjer, að viðkomandi sýslufjelög, sem byrja á að leggja fram fje til slíkra skóla og vilja leggja eitthvað í sölurnar, eigi heimtingu á að fá viðurkenningu fyrir það hjá landssjóði.

Þá er brtt frá háttv. þm. Dala. (B. J.) á þgskj. 910, þar sem hann fer fram á, að skólanum í Hjarðarholti í Dölum sje bætt inn með hinum. Í sambandi við þetta vildi jeg að eins minna háttv. þm. Dala. (B. J.) á hans eigin ummæli um varatill. háttv. þm. Borgf. (P. O.) á þgskj. 919. Hann sagði um þá till., að hvorugur væri bættur, þó að annar fjelli En hjer er alveg eins ástatt með þessa brtt. háttv. þm. Dala. (B. J.). Hún verður til þess að raska jafnvægi milli skólanna og kæmi ruglingi á alt saman, ef hún yrði samþykt.

Jeg skal svo ekki fjölyrða meir um þetta, en vil leggja það undir dóm háttv. deildar. En jeg vil þó geta þess, að fjárveitinganefnd Ed. tók þetta einróma inn í fjárlögin, og það var samþykt þar í háttv. deild í einu hljóði. Um aðrar brtt. ætla jeg ekkert að segja, en mun sýna afstöðu mína til þeirra við atkvæðagreiðsluna.