14.09.1917
Neðri deild: 60. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í B-deild Alþingistíðinda. (164)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg á hjer tvær brtt., sem jeg vildi fara fáum orðum um. Fyrri brtt. er á þgskj. 909. Hún fer fram á, að Steinunni Guðmundsdóttur verði veittur dýrtíðarstyrkur, alt að 1000 kr., til þess að hún geti rekið lækningastofu sína. Hún hefir sótt um 1500 kr. styrk til fjárveitinganefndar hjer, en nefndin hefir ekki sjeð sjer fært að koma með till. í þá átt. Þessi kona hefir starfað hjer við lækningar í 7 ár, og altaf haft marga sjúklinga og mikið að gera. Eftir því sem mjer er kunnugt þá hefir starf hennar borið mjög góðan árangur, enda ber það þess vott, að læknar hjer í bænum hafa oft og einatt vísað til hennar sjúklingum frá sjer. Það sem hún fæst við eru aðallega nuddlækningar, en í lækningastofu hennar hafa menn getað fengið rafmagnsböð, ljósböð o. fl.

Nú hafði jeg heyrt haft eftir nefndinni, að þessi kona hefði ekki rafmagn til lækninga lengur, og fór jeg því að leita mjer upplýsinga um, hvernig á þessu gæti staðið. Ástæðan til þess er sú, að verksmiðjan Völundur, sem hún hefir hingað til fengið rafmagn hjá, hefir ekki efni til að vinna úr, nú sem stendur, og hefir því ekki getað látið henni í tje rafmagn til afnota. En nú mun verða ráðin bót á þessu bráðlega, því að verksmiðjan á einmitt von á skipi með efni í nóvembermánuði, og þegar það er komið, tekur hún aftur til starfa, og þá fær Steinunn rafmagn eins og hún þarf með. Þetta er því ekki veigamikil ástæða móti þessari veitingu. Hjer er að eins um lítinn tíma að ræða, sem hún verður að vera án rafmagns. Auðvitað er það ekki því til fyrirstöðu, að hún geti haldið lækningastofunni áfram, þó að aldrei nema ljósböðin vanti þennan litla tíma. Jeg vona nú, að háttv. fjárveitinganefnd sjái sjer fært að greiða þessari till. atkv., eftir þessar upplýsingar, þar sem mótbára hennar móti till. var bygð á því, að hún vissi ekki betur um málavöxtu. Jeg vil enn fremur geta þess, að síðan Jón læknir Kristjánsson setti hjer á stofn sína lækningastofu þá hefir Steinunn haft alveg jafnmikið að starfa eftir sem áður. Menn eru nú farnir að nota þessar lækningar allmikið, og aðsókn að þeim eykst mikið á hverju ári. Það mundi líka koma sjer illa fyrir sjúklingana, ef lækningastofan yrði að hætta störfum sínum, eins og menn geta skilið. Mjer finst þetta ekki vera nema sanngjarnt, með tilliti til þess, að aðrar lækningastofur hjer hafa verið styrktar og jafnvel fengið dálítinn styrk til áhaldakaupa. Þá er hin brtt. mín, á þingskj. 929, um að kvöldskólanum í Bergstaðastræti verði veittar 300 kr. hvort árið. — Þessi skóli byrjaði að starfa árið 1904 sem barnaskóli, en 1908 sem kvöldskóli. Síðan hefir skólinn haft milli 30 og 50 nemendur á ári. Og mjer er kunnugt um það, að þeir hafa fengið þar ágætisfræðslu, og skólinn altaf starfað með mestu reglusemi. Bæði skólastýru og kennurum skólans er að allra dómi mjög sýnt um að kenna, enda mun jeg ekki einn til frásagnar um það, því að þessi skóli er mörgum að góðu kunnur. Jeg vona því, að háttv. deild leyfi þessari till. að ná fram að ganga, þar sem hjer er um svo nauðalitla upphæð að ræða. Það er eins og háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) sagði, að þetta er rjett fyrir einu tonni af kolum. — Það var eitt atriði hjá háttv. framsm. síðari hluta fjárlaganna (B. J.), sem jeg vildi drepa á. Það er styrkurinn til stórstúku Íslands. Það hefir nú svo mikið verið um þetta talað, að jeg þarf ekki að segja margt. Nefndin vill nú láta þennan styrk ganga til Bræðrasjóðs Mentaskólans, og segir, þessari till. til stuðnings, að hann sje þess vel maklegur og vel viðeigandi, að Alþingi styrki hann. Mjer dettur auðvitað ekki í hug að neita því, að þessi sjóður sje alls góðs maklegur, og ef hjer hefði legið till. fyrir um styrk til hans, án þess að taka það fje frá öðrum þjóðþrifafjelagsskap, þá hefði jeg hiklaust greitt henni mitt atkvæði.

En hitt álít jeg að sje talsvert erfitt, að gera upp á milii þessara tveggja aðilja. Þó tel jeg vafalaust, að þeir sjeu fleiri, sem telji starfsemi bindindisins hjer í landi öllu víðtækari og áhrifameiri fyrir land og lýð, og þá um leið nauðsynlegri, heldur en Bræðrasjóð. Þó skal jeg hins vegar ekki draga neitt úr því, hversu nauðsynlegt sje að styrkja efnilega nemendur til náms. En bæði er það hvergi nærri jafnvíðtækt og hitt, og svo er þessi styrkur úr Bræðrasjóði svo nauðalítill enn sem komið er, að hann munar menn ekki miklu. Að öðru leyti get jeg ekki annað en undrast, hvað nefndin virðist hafa gaman af að hringla með þennan styrk fram og aftur, og lætur sjer ant um, að hann lendi alstaðar annarsstaðar en hjá stórstúkunni. Jeg segi þetta ekki af því, að þetta sje mjer neitt tilfinningamál, síður en svo, því að persónulega stendur mjer á sama. En jeg get ekki annað en metið starfsemi bindindisins hjer á landi mjög mikils, og hlýt af þeirri ástæðu að átelja þetta framferði nefndarinnar.