08.08.1917
Neðri deild: 28. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1741 í B-deild Alþingistíðinda. (1650)

23. mál, Tunga í Skutulsfirði

Frsm. (Hákon Kristófersson):

Það er alveg rjett hjá háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó), að nál. er stutt. Jeg skal játa, að mig brast kunnugleika til að geta samið langt nál. Nefndin bygði álit sitt á þeim skjölum, sem liggja hjer frammi á lestrarsalnum, og allítarlegu nál. frá háttv. Ed., sem samið var af persónulega mjög kunnugum manni. Jeg verð því að líta svo á, að ítarlegri greinargerð hefði verið alveg óþörf.

Háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) sagði, að verðið væri oflágt; jeg hefi engu slegið föstu um það, en hins vegar verð jeg að líta svo á, að úr því að jörðin er seld Ísafjarðarkaupstað, horfir málið öðruvísi við en ef selt væri einstökum mönnum. Það verður að gæta þess, að þótt ef til vill megi segja, að verðið sje lágt, þá er það þó ekki lægra en venjulegt er um hlunnindalausa jörð; miklu fremur töluvert hærra en venja er til. Jeg get því ekki viðurkent, að niðurstaða nefndarinnar sje rjettmæt. Sjerstaklega gátum vjer ekki búist við því, að nokkuð væri sölunni til fyrirstöðu, þar sem meðal þeirra skjala, sem fyrir lágu, var eitt frá nákunnugum manni hjer í háttv. Ed., og þar var þess ekki getið, að nokkuð væri sölunni til fyrirstöðu. Jeg verð að álíta, að tæplega sje rjett að neita um söluna, einkum af því að líklegt er, að betur verði að jörðinni hlynt, eftir að hún er orðin eign Ísafjarðarkaupstaðar. Sjerstaklega á jeg þar við, að betur muni verða hlynt að skóginum þegar hann er orðinn bæjarins eign, því að nú mun nokkur misbrestur á því, að einstakir menn hlynni að skóglendum sínum.