08.08.1917
Neðri deild: 28. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1742 í B-deild Alþingistíðinda. (1651)

23. mál, Tunga í Skutulsfirði

Magnús Guðmundsson:

Það var leitt, að nefndin vissi ekki, að háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) var svona kunnugur þarna fyrir vestan, því að auðvitað hefði hún þá leitað upplýsinga hjá honum. En nefndin leitaði upplýsinga hjá öðrum nákunnugum manni, og hann hafði ekkert að athuga við söluna. Kaupstaðurinn á nú land að þessari jörð, sem nú er nýlega bygð ungum manni til lífstíðar, og verður ábúðinni vitanlega ekki riftað, og er þetta stór ókostur fyrir kaupanda. Það hefir hingað til verið venja að selja kaupstöðum og þorpum landssjóðsjarðirnar í nágrenni við þau með sanngjörnum skilmálum. Því að það getur oft verið þeim lífsskilyrði að fá þær keyptar. Ekki síst á þetta við um Ísafjörð, því að hann mun ekki eiga nema mjög lítið land þar í grend, sem auðið er að rækta, en nauðsynlegt að hafa slíkt land, til þess að kaupstaðurinn geti aflað sjer mjólkur. Þetta voru ástæður nefndarinnar til að mæla með sölunni, og vona jeg, að deildin sjái, að salan er sanngjörn.