08.08.1917
Neðri deild: 28. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1743 í B-deild Alþingistíðinda. (1655)

23. mál, Tunga í Skutulsfirði

Benedikt Sveinsson:

Viðvíkjandi ítakinu er það að segja, að það er eign Eyrarkirkju í Skutilsfirði, er skógarblettur, um 20 dagslátur að stærð. Þar af eru 10 dagsláttur þegar leigðar kvenfjelaginu Ósk á Ísafirði, sem hefir látið girða skóginn, og ætlar það ekki að beita þar geitfje sínu, heldur hafa skóglendið fyrir skemtistað.

Það er annars nokkuð skrítið að amast við sölunni á þessari jörð, því að það er alkunna, að kaupstaðurinn í Skutilsfirði er illa staddur með landrými, en öðrum kaupstöðum og kauptúnum hafa verið seldar nærliggjandi jarðir. T. d. hefir Akureyri fengið Kjarna, og mun sú jörð nú vera betur notuð en áður og koma að meira gagni heldur en ef hún hefði verið leigð einhverjum kotbónda. Sömuleiðis fjekk þorpið Húsavík jörðina Húsavík keypta, og svo mætti lengi halda áfram að telja. Jeg get til dæmis mint á það, að Reykjavík hefir nú fengið keyptar flestar jarðir hjer í nágrenninu. Að öllu athuguðu skil jeg ekkert í þessari meinsemi hjá háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.).