14.09.1917
Neðri deild: 60. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í B-deild Alþingistíðinda. (167)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Jeg hafði ekki ætlað mjer að tala aftur við þessa umr., en háttv. þm. Barð. (H. K.) gaf mjer tilefni til þess að segja nokkur orð. Hann furðaði sig á því, að stjórnin hefði ekki viljað bæta launakjör lækna. Jeg býst við, að hann viti, að tilefnið til þess, að stjórnin fór fram á, að veitt yrði þetta skrifstofufje, voru umkvartanir frá sýslumönnum, en engu slíku er til að dreifa um læknana. Stjórnin hafði á engu að byggja með læknana, en hinar tekjurnar voru henni kunnar. Þótt það sje rjett hjá háttv. þm. Barð.

(H. K.), að læknar lifi á sjúkdómum, og að það gæti því verið freisting fyrir þá að koma í veg fyrir þá, þá held jeg, að það komi ekki að meini, því að þess er líka að gæta, að með vaxandi menningu og fjölgun fólks þá vaxa aukatekjur þeirra. Þetta er ástæðan til þess, að stjórnin lagði ekki til að bæta launakjör lækna fram yfir dýrtíðaruppbótina. Þá mintist sami háttv. þm. (H. K.) á það, að sýslumenn fengju sjerstaka borgun fyrir aukastörf sín, en svo er ekki nema fyrir innheimtu, því að það leggjast á þá vaxandi skýrslugerðir, án þess að þeir fái nokkra aukaborgun fyrir, ekki síst nú, þegar þeir þurfa að svara svo ákaflega mörgum fyrirspurnum frá verslunarskrifstofu landsins og stjórnarráðinu. Þeir fá enga aukaborgun fyrir það verk, og er þó fyrirhöfnin við það mjög mikil.

Háttv. þm. (H. K.) sagði, að sumar skýrslurnar frá sýslumönnum væru ósannar. Það tekur ekki til mín að krefja hann skýringar á þeim orðum, en mjer þykir það nokkuð langt gengið að nota þinghelgina til þess að bera mönnum slíkt á brýn.