14.09.1917
Neðri deild: 60. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 589 í B-deild Alþingistíðinda. (170)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg vildi einungis svara háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) örfáum orðum. Hann fann að því, að íslenskum skipstjóra hefði ekki verið veitt undanþága, sem hann sótti um og rjett hefði verið að veita honum. Jeg veit það, að þessi umræddi skipstjóri fjekk ekki þá undanþágu, sem hann sótti um, en hygg, að það hefði verið alveg gagnstætt lögum að veita hana, því að skipið, sem hann átti að sigla, var ótvírætt verslunarskip.

Jeg vona, að styrkur til skrifstofukostnaðar handa sýslumönnum fái að standa, eða að minsta kosti það, sem háttv. fjárveitinganefnd leggur til að veita þeim. Það er ekki meiningin, að það verði föst fjárveiting, heldur ber þetta að skoða sem sjerstaka dýrtíðaruppbót. Um hagnað þann, sem þeir hafa af landssjóðsversluninni, er það að segja, að sumstaðar er hann mjög lítill og fer minkandi, ef kaupmönnum og kaupfjelögum verður falin úthlutunin, enda eru tekjur þeirra hæstar 2%, annars venjulega minna. Jeg vona, að menn láti styrkinn óáreittan, því að ef menn athuga málið nógu vel, þá sjá þeir, að mjög ósanngjarnt væri að fella hann.