03.09.1917
Neðri deild: 50. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1756 í B-deild Alþingistíðinda. (1705)

27. mál, bæjarstjórn Ísafjarðar

Frsm. (Einar Arnórsson):

Frv. þetta er komið frá háttv. Ed. og er endurskoðun á gildandi löggjöf um þetta efni. Nokkrar viðbætur eru gerðar við þau lög, sem nú gilda, t. d. það, að bæjarbúum skuli heimilað að kjósa sjer bæjarstjóra, sem fari með bæjarmálefni kaupstaðarins. Flestar breytingarnar helgast af þessu. Viðvíkjandi útsvarsskyldunni vildi nefndin setja glögg ákvæði, á sama hátt og er í frv. til bæjarstjórnarlaga fyrir Akureyri. Svo er eitt atriði enn, sem nefndinni þótti ástæða til að breyta. Í 2. málsgrein 20. gr. er svo ákveðið, að bæjarstjórn megi ákveða að leggja útsvar á aðkomumenn, ef henni þykir þess þurfa. Hjer er engin ákveðin útsvarsskylda. Nefndinni varð það ljóst, að af því gæti orsakast handahóf og rangindi. Hún leggur því til, að þessu verði breytt og fylgt ákveðinni reglu um útsvarsskyldu utanbæjarmanna. Nefndin leggur svo til, að frv. verði samþ. með þeim breytingum, sem hún hefir á því gert.