14.09.1917
Neðri deild: 60. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 589 í B-deild Alþingistíðinda. (171)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Hákon Kristófersson:

Hæstv. atvinnumálaráðherra var að tala um, að læknar hefðu ekki sent neina beiðni um uppbót á embættisrekstri, og að þeir hefðu ekki sent neinar skýrslur um það, hvað sá rekstur kostaði. Jeg veit ekki til, að sýslumenn alment hafi sent slíkar skýrslur. Mjer vitanlega hefir ekki heldur komið beiðni í þessa átt, nema frá einum sýslumanni, svo að á því er ekki mikið byggjandi. Í sambandi við þetta talaði hæstv. atvinnumálaráðherra um, að skýrslugerð væri erfið hjá sýslumönnum. Sje hún erfið hjá sýslumönnum, þá er hún það ekki síður hjá öðrum embættismönnum.

Það er alveg talað út í hött hjá hæstv. atvinnumálaráðherra, að jeg hafi farið ómjúkum orðum um sýslumennina. Jeg skal endurtaka það utan þinghelginnar, að jeg efast um, að öll sú dýrtíðaruppbót, sem veitt var síðastliðinn vetur, sje á rökum bygð. Sömuleiðis það, að jeg álít það vera mikla freistingu, bæði fyrir sýslumenn og aðra, að finna upp sem flest til þess að ná sjer í frekari uppbót.