10.09.1917
Efri deild: 52. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1758 í B-deild Alþingistíðinda. (1710)

27. mál, bæjarstjórn Ísafjarðar

Framsm. (Magnús Torfason):

Þessu frv. hefir verið breytt í háttv. Nd. Flestar breytingarnar stafa af því, að háttv. Nd. kunni betur við, að sumar greinar væru eins orðaðar og í lögunum um bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar. Að eins eina efnisbreytingu hefir háttv. Nd. gert á frv. í 20. gr. frv. var svo mælt fyrir, að bæjarstjórn mætti ekkert bæjargjald hækka eða lækka um minna en 10%. Háttv. Nd. þótti þetta nokkuð hart aðgöngu, þar sem um þúsundir króna gæti verið að ræða, og hefir þess vegna felt þessa málsgrein niður. Hefir nefndin eftir atvikum getað fallist á þessa brtt.

Enn fremur hefi jeg leyft mjer að bera fram brtt. á þgskj. 858, við 32. gr. frv., að á eftir orðunum »lög nr. 26, 16. nóv. 1907« komi: að því er byggingarmálefni snertir. Stafar þessi breyting af því, að frv., eins og það var samþ. hjer í þessari háttv. deild, var miðað við, að frv. til hafnarlaga, er samþ. var með öllum 14 atkv. hjer í deildinni, næði að verða að lögum. En nú hefir háttv. Nd. ráðið því frv. bana. Er því breyting þessi nauðsynleg, þar sem lög nr. 26, 16. nóv. 1907, eru afnumin í frv., með það fyrir augum, að sjerstök ný hafnarlög yrðu sett.