13.07.1917
Efri deild: 8. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1774 í B-deild Alþingistíðinda. (1721)

39. mál, fasteignamat

Flm. (Guðjón Guðlaugsson):

Mjer heyrðist lítill munur vera á skoðun minni og hv. 1. þm. Rang. (E. P.). En mjer fanst hann ekki skilja fyllilega dæmi mitt um hálflendurnar tvær, þegar svo stendur á, að eigandi er ábúandi á helmingi jarðarinnar og sá helmingur hækkar stórum í mati sökum húsavirðingarinnar. Dæmi hans var ekki rjett, því að ekki er hægt að hafa sjerstakt mat á þeirri jörð, sem einn maður býr á. Það má því að eins meta sjer, ef tveir eða fleiri ábúendur eru á jörðunni og hús ábúenda aðskilin, svo að hver jarðarhluti getur skoðast sem sjerstök jörð. Þessi sami hv. þm. (E. P.) taldi það eitt vera á móti launahækkuninni, að þá væri ekki samræmi við laun fyrir önnur störf. Jeg á erfitt með að skilja þessa ástæðu. Jeg fæ ekki sjeð, að rjett sje að borga mönnum sultarlaun fyrir þetta verk, þó að það sje gert fyrir önnur verk. Er þá ætlunin sú, að þessu verði aldrei kipt í lag? Jeg fæ ekki betur sjeð en að þessi ástæða komi málinu ekkert við.

Hv. 2. þm. Húnv. (G. Ó) tók þetta sama atriði fram og hv. 1. þm. Rang. (E. P.), og benti á laun sýslunefndarmanna og annara opinberra starfsmanna í sveitum. Hjelt hann því fram, að þau störf væri engu vandaminni en fasteignamatsstarfið. Jeg get þá frætt þennan hv. þm. (G. Ó.) á því, að jeg hefi verið sýslunefndarmaður, hreppstjóri og oddviti og yfirleitt gegnt öllum þeim opinberum störfum, sem fyrir koma í sveitum, en jeg get fullyrt, að ekkert þeirra er eins vandasamt og fasteignamatsstarfið, ef það á að vera heiðarlega af hendi leyst og verða manni ekki til skammar. Allir, sem við þetta verk fást, og skilja starfið í raun og veru, finna glöggast til þess, hversu vandasamt það er. Og jeg fæ ekki skilið, að nokkur ástæða sje til þess að svelta þessa starfsmenn, sem vinna að einu þýðingarmesta opinbera verkinu, sem í sveitum er unnið. Mjer finst vera full ástæða til þess að hækka kaupið af þeirri ástæðu einni. Annars má einnig geta þess, að nú er þó verið að leitast við að bæta laun opinberra starfsmanna í sveitum nokkuð. Stjórnin hefir t. d. lagt fyrir þingið frv. um að hækka laun hreppstjóra. Jeg tel sjálfsagt, að það fái góðan byr hjá öllum, nema ef til vill einstöku mönnum, sem aldrei hafa hreppstjórar verið og geta ekki gert sjer neinar vonir um að verða það nokkurn tíma. Hv. 2. þm. Húnv.

(G. Ó.) hjelt, að mig hefði tekið það sárt, að hann skyldi mæla á móti launahækkuninni í vetur, sökum þess, að jeg hefði verið í nefndinni. Því fer mjög fjarri. Og jeg gætti þess að þegja alveg, er málið var til umræðu, vegna þess, að jeg taldi mig ekki vera nógu vel heima í lögunum, og satt að segja hjelt jeg, að hann hefði ekki hugmynd um, að jeg væri í fasteignamatsnefnd. Hitt er auðfundið á öllu, að hann er ekki í fasteignamatsnefnd sjálfur; jeg fann það þegar í vetur. Annars var ýmislegt í ræðu þessa hv. þm. (G. Ó.), sem jeg skildi ekki vel, eða sýndi öllu heldur, að hann skildi ekki lögin nje sjálfan sig. Hann var að tala um, að skatti af húsum, sem næmu meira en þriðjungi jarðar, væri slept. Þetta er ekki rjett. Hálft jarðarverðið er lagt til grundvallar, en ekki þriðjungur þess. Reyndar geta orðið nokkur slumpakaup á þessu í reyndinni, og ekki fyllilegt samræmi í lögunum. Ef jörð er t. d. metin á 1000 kr. og húsin metin á 500 kr., þá er tekinn skattur af öllu, en þótt húsin sjeu 2000 króna virði, verður skatturinn jafn.

Háttv. 2. þm. Húnv. (G. Ó.) kvaðst vera á móti því, að leigjendum væri slept. Jeg veit nú ekki gerla, hvað hann á við með því. Í frv. er farið fram á það eitt, að húsum leigjenda væri slept við skatt. Það var farið fram á þetta sama í vetur, og jeg get ekki sjeð að það sje ósanngjarnt. Því að það er augljóst, að mesta fjarstæða er að leggja hús jarðeiganda og leigjanda að jöfnu. Sje það rjett, að hundrað í húsum sje minna virði en hundrað í jörð, þá verður ekki með neinni sanngirni sagt, að hús leiguliða sje minna virði en hús jarðeiganda. Þetta kemur bert í ljós, þegar eigenda- eða leigjendaskifti verða á jörð. Jarðeigandi þarf alls ekki að selja jörðina nema hann fái sæmilega mikið fyrir hús sín, en leigjandi verður að taka við þeim boðum, sem nýi ábúandinn býður honum fyrir hús hans, eða rífa þau ella. Af þessu má sjá, að þrjú stig verða að vera í skattaálagningunni. Leiguliðahúsin eru að vísu eign, en það eru ekki vissir peningar, sem gefa ákveðinn arð.

Jeg minnist þess ekki, að fleira hafi verið í þessum ræðum þessara háttv. þingmanna, sem þörf sje á að svara að þessu sinni.