08.08.1917
Efri deild: 25. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1792 í B-deild Alþingistíðinda. (1731)

39. mál, fasteignamat

Eggert Pálsson:

Jeg skal ekki blanda mjer á neinn hátt inn í ágreiningsatriði nefndarmanna. Jeg vildi að eins athuga brtt. á þgskj. 317, eins og hún liggur fyrir.

Mjer virðist ekki laust við, að það kenni stefnubreytingar hjá háttv. flm. (G. G.) í 2. málsgr. 1. gr. Á þgskj. 317 er farið fram á, að eitt hundrað á landsvísu skuli telja »500 kr. í matsverði húsa á jörð utan kaupstaða og sjávarþorpa, sem eru eign leiguliða jarðar eða annara«, þar sem aftur á móti í frv. á þgskj. 39 hús leiguliða eða annara jarðeigenda eru undanþegin skatti. Það er mikill munur á þessu tvennu. Það dylst engum. Og jeg verð að segja það fyrir mitt leyti, að jeg get ekki aðhylst þessa breytingu á þgskj. 317, og því síður get jeg ljeð henni fylgi mitt fyrir það, að hún felur í sjer jafnhliða stefnubreytingu frá sjálfum fasteignamatslögunum, breytingu, sem jeg álít ekki til bóta. Það var víst tilætlun þingins að undanþiggja þau hús skatti, sem ekki fylgdu jörðinni. Einnig mun það hafa verið vilji þingsins að skattskylda ekki umbætur á jörðinni, sem gerðar hefðu verið síðustu 10 árin. Ef háttv. flm. (G. G.) hefði ekki hvikað frá þessari stefnu, hefði ekki verið um neinar verulegar stefnubreytingar frá lögunum að ræða. Breytingin hefði þá að eins verið sú, sem fólgin er í 1. málsgrein 1. gr. Og þá breytingu hefði jeg getað aðhylst, þar eð jeg tel greinina verða skýrara orðaða með henni. En til þess að jeg geti fylgt greininni í heild sinni, þyrfti að breyta 2. málsgr. 1. gr. á þgskj. 317, og taka það skýrt fram, að önnur hús en þau, sem jörðinni fylgja, og 10 ára jarðarbætur, sjeu undanþegin skatti. Jeg er sannfærður um, að breytingin, sem hv. flm. (G. G.) hefir gert á þessu ákvæði, síðustu útgáfunni á nefndu þgskj., 317, mun valda afarmikilli óánægju, ef hún verður samþykt. Og sú óánægja er eðlileg og skiljanleg. Því að það er í alla staði órjettlátt að skattskylda t. d. hús, sem reist hafa verið fyrir einu til tveim árum, og eigandinn stendur oftast nær í meiri eða minni skuld fyrir. Slíkt mundi gera menn ragari til endurbóta á húsum eða jörðum. Og er það þinginu ósamboðið að leggja slíkar hömlur á menn til framkvæmda. Og verði greinin samþykt, vildi jeg leita samkomulags við háttv. flutnm.

(G. G.) að fá þessu aftur breytt í svipað horf og sýnilega hefir fyrir honum vakað í upphafi, er hann fyrst samdi frv.

Um hækkunina á kaupi fasteignamatsnefndarmanna vil jeg geta þess, að jeg ljet þá skoðun í ljós við 1. umr. málsins, að ekki mundi brýn nauðsyn á þessari breytingu, með því að fleiri starfsmenn þjóðfjelagsins, svo sem hreppstjórar, hreppsnefndaroddvitar og sýslunefndarmenn, væru lágt launaðir, en hins vegar engin ástæða til að hækka fremur kaup þessara manna en annara. En nú hefir verið borið fram frv. í þinginu um hækkun á launum þessara starfsmanna þjóðfjelagsins, bæði hreppstjóra, oddvita og sýslunefndarmanna, og geng jeg að því vísu, að þau verði samþykt.

Afstaða mín gagnvart þessu atriði er þess vegna töluvert önnur orðin nú en við 1. umr., þar sem vissa er nú fyrir því, að laun þessara áminstu starfsmanna, hreppsnefndaroddvita, hreppstjóra og sýslunefndarmanna, verða nokkuð hækkuð; þá er ekki jafnmikil ástæða sem áður til að vera á móti hækkun á borguninni til fasteignamatsmannanna. En, eins og jeg gat um áður, er jeg í hálfgerðum vanda staddur um afstöðu mína til 1. gr. Jeg er sem sje samþykkur 1. málsgr., en ósamþykkur 2. málsgr. Jeg vil þess vegna skjóta því til hæstv. forseta, hvort ekki geti samrýmst þingsköpum að bera greinina upp í tvennu lagi til atkvæðagreiðslu. (Forseti: Nei). Þá verð jeg að taka þann kostinn að greiða henni atkv., í þeirri von, að fram komi brtt. við hana við 3. umr., annaðhvort frá mjer sjálfum eða háttv. flm. (G. G.) eða okkur báðum í sameiningu.