08.08.1917
Efri deild: 25. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1795 í B-deild Alþingistíðinda. (1733)

39. mál, fasteignamat

Frsm. minni hl. (Guðjón Guðlaugsson):

Jeg ætla að byrja mál mitt á að svara háttv. 2. landsk. þm. (S. E.).

Jeg held, að hann hafi ekki hugsað þetta mál nógu vel. Tökum t. d. jörð, sem er metin á 20000 kr., og hús, sem metin eru á 10000 kr. Eftir lögunum á að borga af húsunum það, sem nemur helmingi jarðarverðsins. En jeg álít hart að verða að gjalda jafnmikið af 10000 kr. í húsum sem af 10000 kr. í jörð. Jeg fer því fram á lækkun með brtt. minni.

En nú getur staðið svo á, að þetta standi ekki heima. Ef jörð er metin 10000 kr. og húsin á henni á 10000 kr., þá er 5000 kr. slept undan skattskyldu, eftir lögunum, og þá er breytingin engin, samkvæmt brtt. minni. Eftir brtt. á að gjalda helmingi minni skatt af helmingi meiri fjárhæð. Þetta kemur því alveg í sama stað niður. En ef jörðin er metin 5000 kr. og nauðsynleg hús á henni 4000 kr., þá verður lægri skattur á húsunum eftir minni brtt. en lögin ákveða, í stað þess, að mönnum, sem eiga hús, er metin eru 10000 kr., á jörð, sem metin er 5000 kr., er hlíft.

Háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) talaði aðallega um stefnubreytingu, sem feldist í brtt. minni. Það er satt; hún hefir í för með sjer stefnubreytingu. En sú stefnubreyting stafar einkum af tilhliðrunarsemi við nefndina. Jeg álít, að stefnubreyting þessi sje rjettmæt og að ástæður til hennar sjeu nægar. En um skattskyldu á 10 ára jarðabótum er jeg fús til að bera mig saman við háttv. þm.

Háttv. fram. meiri hl. (G. Ó.) hjelt, að jeg mundi ekki þekkja allar fasteignamatsnefndir nje tilhögun þeirra, fremur en hann. Það er satt, að jeg þekki þær ekki allar; en jeg geng að því vísu, að þær sjeu skipaðar líkt því, sem á sjer stað um nefndir, sem skipaðar eru til þýðingarmikilla starfa, sjeu skipaðar skynsemi gæddum mönnum, jafnvel talsvert skynsamari en háttv. 2. þm. Húnv. (G. Ó.) reynist. Jeg byggi því á þessu það, að þeir hafi vit á að fara eftir fyrirsögn stjórnarráðsins, sem það hefir gefið út, þeim til leiðbeiningar.

Að öðru leyti ætla jeg ekki að svara háttv. fram. meiri hl. (G. Ó.) frekar; jeg álít, að þeim tíma, sem í það fer, sje illa varið, því að jeg treysti mjer ekki til að svara á þann hátt, sem best ætti við.