17.08.1917
Neðri deild: 36. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1804 í B-deild Alþingistíðinda. (1745)

39. mál, fasteignamat

Stefán Stefánsson:

Eftir mínu áliti er frv. þetta mjög varhugavert. Þar er ráðið til að fella burt úr fasteignamatslögunum ákvæðin um það, eftir hvaða reglum jarðir skuli telja til ábúðarskatts, og sömuleiðis ákvæðin um húsaskatt af skattskyldum húseignum. Ef svo væri gert, þá verða engin ákvæði til um það lengur, hvernig ábúðar- og húsaskattur skuli lagður á eftir að fasteignamatslögin koma í gildi, því að í þeim lögum er mælt svo fyrir, að þegar matinu sje lokið, skuli landsstjórnin láta semja fasteignabók fyrir alt landið, og þá falli jarðabókin frá 1361 úr gildi.

Enn er það athugavert við frv., að vafi getur leikið á því, hvort hækkunin á þóknuninni fyrir fæði og ferðakostnað eigi að ná til alls starfstímans, eða að eins frá því, að matsnefndir byrjuðu á matinu og til þess tíma, sem nefndirnar vinna að því eftir að breytingin verður að lögum.

Eftir frv. getur þetta skilist á báða vegu, og verður að sjálfsögðu að athugast af nefnd, áður en deildin lætur málið frá sjer fara.