17.08.1917
Neðri deild: 36. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1805 í B-deild Alþingistíðinda. (1746)

39. mál, fasteignamat

Pjetur Þórðarson:

Jeg held, að það sje misskilningur hjá háttv. 1. þm. Eyf. (St. St ), að frv. þetta komi nokkuð við lögum um húsaskatt. Hitt er rjett, að það kemur við lögum um ábúðarskatt. Jeg held, að það væri ekki skaði skeður, þótt þessi ákvæði fjellu burt, því, sýnilegt er, að það þarf í nánustu framtíð að gera ný ákvæði um það, hvernig leggja skuli skattinn á. Ný skattalöggjöf mun nú liggja við borð.

Misskilningur var það og hjá sama háttv. þm. (St. St), að kauphækkunin ætti að gilda afturfyrir sig. Svo er aldrei um nein lög, að þau gildi um það sem liðið er. Auðvitað er átt við þann tíma, sem eftir er, svo lengi sem fasteignamat fer fram, eftir þessum lögum.

Rjettast væri að málið færi í nefnd, og teldi jeg allsherjarnefnd heppilegasta.