29.08.1917
Neðri deild: 46. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1807 í B-deild Alþingistíðinda. (1749)

39. mál, fasteignamat

Frsm. (Stefán Stefánsson):

Jeg gat þess við 1. umr., að naumast gæti komið til mála að samþykkja þetta frv. óbreytt, eins og það kom frá hv. Ed., sjerstaklega 1. gr. þess. Jeg gat þá um helstu ástæðurnar fyrir því, hvers vegna jeg teldi það ákvæði naumast geta komið til mála, og hirði ekki að telja þær upp nú, með því líka að landbúnaðarnefndin hefir einróma fallist á þær og í samræmi við þær komið fram með brtt., sem er einskonar skýring eða nánari sundurliðun ákvæðanna um skattaálagninguna eftir 9. gr. fasteignamatslaganna, samskonar og samþykt var hjer í Nd. á síðasta þingi, en varð þá ekki útrætt í hv. Ed. Þessi brtt. er á þgskj. 631, og þar tilgreint í þremur liðum, hvað sje undanskilið ábúðarskatti. Um greinina, þannig orðaða, er nefndin öll á einu máli.

Þar á móti hefir nefndin ekki getað komið sjer saman um 2. gr. Meiri hluti nefndarinnar, sem jeg telst til, telur viðunanlegt, að borgun til matsmanna sje 6 kr. á dag frá 1. jan. 1917, en í frvgr. er það sett 7 kr., án þess að þar sje tiltekið, hvort launin eigi að reiknast svo frá því, að frv. er staðfest, eða frá þeim tíma, er matið hófst. Þetta vildi nefndin ákveða, svo að enginn vafi gæti á því leikið, og var öll sammála um að setja takmark daglaunahækkunarinnar frá 1. jan. 1917. Lengra aftur í tímann kom nefndinni saman um að fara ekki. Nú eru tímarnir svo breyttir, að ástæða er til þess að borga meira en þegar matið byrjaði, og hefir sú breyting aðallega orðið nú á síðustu tímum. Meiri hluti nefndarinnar hafði aðallega fyrir augum hækkun á kaupi sýslunefndarmanna í 6 kr., sem samþykt hefir verið nú í þinginu, og það án þess, að um það yrði nokkur verulegur ágreiningur. Á það ber að líta, hvað matið snertir, að matsmenn geta mjög mikið unnið að því heima hjá sjer á vetrum, en sýslunefndarmenn eru þann tíma, sem þeir fá kaup, að heiman og þá alloftast í kaupstað eða kauptúnum, svo að dvölin verður þeim venjulegast mjög kostnaðarsöm. Annars er meiri hluta nefndarinnar þetta ekkert kappsmál, lætur það algerlega vera á valdi deildarinnar, hvernig fer um þennan ágreining, en óneitanlega er þessi samanburður, er jeg hefi bent á, mjög sanngjarn.