16.07.1917
Efri deild: 9. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1817 í B-deild Alþingistíðinda. (1763)

54. mál, húsmæðraskóli á Norðurlandi

Flm. (Magnús Kristjánsson):

Hæstv. atvinnumálaráðherra hefir, að því er mjer skildist, ekki tekið nákvæmlega eftir orðum mínum.

Hann (atvinnumálaráðh.) sagði, að jeg gengi út frá því, að málið sje hjer nýtt í frumvarpsformi. Það voru ekki mín orð, heldur sagði jeg, að málið væri ekki nýtt í þinginu, og er mjer fullkunnugt um alt það, er hann sagði um sögu málsins frá upphafi. Annars víkur því dálítið öðruvísi við en honum fórust orð um frv. 1907. Hugmyndin er þar að eins um lítinn sveitaskóla, sniðinn, að mestu eftir »Den praktiske Jenteskole i Smaalenenes Amt i Norge«. Hjer er öðru máli að gegna og um alt annan grundvöll að ræða.

Hitt var alveg rjett tekið fram af hæstv. atvinnumálaráðh., að ágreiningur mundi verða um það, hvar skólinn eigi að standa. Í sambandi við áskorunarskjal það, er hann las upp frá norðlenskum konum, þá get jeg lýst yfir því, og hefi þegar gert það í framsögu minni, að hjer liggur frammi annað áskorunarskjal frá konum, svo að þúsundum skiftir. Finn jeg ekki ástæðu til að lesa það upp og tefja með því fyrir störfum hæstv. deildar. Vona jeg, að háttv. þm. kynni sjer það sjálfir, er þeir rannska málið. En þar sem áskorunum þessum ber ekki saman um staðinn, þá ætti það að nægja til þess, að það atriði yrði látið liggja á milli hluta fyrst um sinn. Enda skortir málið undirbúning til þess, að hægt sje að ræða um það. Kemur það fyrst til greina er til framkvæmdanna kemur, og verður það þá að líkindum hlutverk stjórnarráðsins og fræðslumálastjórnar að ákveða staðinn.

Þá vil jeg með örfáum orðum minnast á athugasemdir hæstv. atvinnumálaráðh. um nafn skólans. Eftir minni hyggju er »hússtjórnarskóli« betra nafn, Það orð er rýmra. Og eftir algengri merkingu orðsins »húsmóðir«, þá er það vafalaust, að fleiri konur hafa þörf á mentun þeirri, er skólinn á að veita, heldur en þær, sem því nafni nefnast.

Þar sem hæstv. atvinnumálaráðh. er farinn af fundi, sje jeg ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið að þessu sinni.