21.08.1917
Efri deild: 35. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1823 í B-deild Alþingistíðinda. (1767)

54. mál, húsmæðraskóli á Norðurlandi

Magnús Kristjánsson:

Um meðferð hinnar hv. nefndar á frv. þessu skal jeg segja það, að mjer þykir hún að sumu leyti góð, þó að mjer líki hún alls ekki í alla staði. Það er sjerstaklega meiri hluti nefndarinnar, er jeg tala til hjer, því að hv. 2. þm. Húnv. (G. Ó.) er þeim ekki samdóma.

Mjer þykir fjárframlag það, er nefndin leggur til að heimtað sje annarsstaðar að en úr landssjóði, vera helst til hátt, og jeg tel það mikið efamál, að rjett sje að setja slíkt skilyrði, en þótt slíkt skilyrði sje sett, þá virðist vera óþarft að krefjast meira en ¼ hluta kostnaðar, og má vera, að jeg komi fram með brtt. um þetta við 3. umræðu. Aðrar brtt. nefndarinnar eru ekki svo varhugaverðar, að jeg geti ekki fallist á þær. Háttv. 2. þm. Húnv. (G. Ó.) var aðallega að tala um það, hvar skólinn eigi að standa, og jeg tel rjettast að láta það atriði liggja nú milli hluta, og jeg lít svo á, sem nefndin hafi komist að sæmilegri niðurstöðu um það. Og að ákveða, að skólinn eigi að standa frammi í einhverjum dalabotni, verð jeg að telja beinlínis óheppilegt. Eins og háttv. nefnd hefir gengið frá þessu atriði þá getur skólinn jafnt staðið í Suður-Þingeyjarsýslu sem Eyjafjarðarsýslu, og hafa því bæði þessi sýslufjelög jafnmiklar líkur til að fá skólann til sín, en sá böggull fylgir skammrifi, að sú sýsla, er hreppir hann, verður að leggja fram mikið fje til stofnkostnaðarins, en þá sjest líka ef til vill best, hvar hugur fylgir mest máli.

Háttv. 2. þm. Húnv. (G. Ó.) var að tala um það, að fleiri konur á Norðurlandi hefðu með undirskrift sinni óskað þess, að skólinn yrði settur í sveit. Þetta er satt hvað töluna snertir, en þess ber að geta, að þar hafa skrifað undir allmargir unglingar, og þótt þeir hafi ef til vill áhuga á málinu, þá hafa þeir ekki eins mikinn þroska til að dæma um þetta eins og þær konur, sem eldri eru, og því ekki rjett að gera svo mikið úr því.

Háttv. 2. þm. Húnv. (G. Ó.) gerði mikið úr skrifum frú Jónínu Sigurðardóttur Líndal, en jeg hygg, að það muni vera best, að sem minst sje talað um greinar hennar, og jeg tel, að þeir, sem hafa ritað á móti henni, hafi fært fult svo góð rök fyrir máli sínu. Svo býst jeg við, að óhlutdrægir menn líti á það.

Þessi háttv. þm. (G. Ó.) vildi ekki láta setja skólann niður í fjöruna, en jeg sje ekki, að nefndin hafi ákveðið það, og þótt skólinn væri bygður í gróðrarstöðinni á Akureyri, þá yrði hann hvorki reistur á fjöru nje sandi. Háttv. þm. (G. Ó.) hefir líklega haft aðra skoðun um sveita- og kaupstaðarskóla, þegar Blönduósskólinn var bygður. Og án þess að jeg vilji leggja neinn dóm á það atriði, þá vil jeg þó segja það, að Húnvetningar eru ekki líklegri til þess að vera leiðandi menn í kvennaskólamálum, ef dæma á eftir reynslu þeirra, því að skóli þeirra hefir engin fyrirmynd verið, að því er mjer er kunnugt.