10.09.1917
Neðri deild: 56. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1848 í B-deild Alþingistíðinda. (1795)

54. mál, húsmæðraskóli á Norðurlandi

Pjetur Jónsson:

Jeg ætla ekki að mótmæla háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.), því að jeg álít, að hann hafi mikið til síns máls, er hann álítur, að ekki sje árennilegt að samþ. frv. með svo óákveðnum orðatiltækjum, sem nú eru í því. En hins vegar er þess líka að gæta, að verði þetta mál látið bíða þangað til Norðlendingar hafa komið sjer saman um það, hvar skólinn skuli standa, þá sje jeg ekki mikil líkindi til, að skólinn komist upp í fyrirsjáanlegri framtíð. Það er nú komið svo mikið kapp í það mál, síðan konur á Akureyri hófust handa 1915 og heimtuðu skólann til sín, að jeg sje ekki nokkra von um, að sú deila yrði jöfnuð mjög bráðlega. Þingið eða stjórnin verður því að skera úr deilunni, Nú vill þingið losna við þann vanda og koma honum yfir á stjórnina, og það er gallinn að þurfa þess. En eftir frv. verður stjórnin að útvega skólanum jörð, og mjer þykir ólíklegt; að sú jörð geti orðið í næstu grend Akureyrar, svo að þangað verði skólagangur af Akureyri.

Jeg vil því samþ. þetta frv. nú, af því að jeg hygg ekki, að það verði eftir betra að bíða um samkomulagið. En það vil jeg taka fram, stjórninni til athugunar, að verði skólinn ekki settur í sveit, þá verður almenn óánægja norðanlands. Það er ekki af því, að við óttumst siðspillingu í venjulegum skilningi samfara kaupstaðarskólanum, eins og okkur hefir verið borið á brýn. Við erum alls ekki að sýna Akureyri, sem bæ, neitt vantraust. En það, sem við viljum, er, að það sje sveitamenningin, sem skólinn efli, bæti og haldi uppi, að hann geymi allan gamlan og góðan arf, sem samrýmst getur því góða, sem nútíminn færir. Skólinn þarf því að vera reglulegt fyrirmyndarsveitaheimili. En það verður hann ekki, ef öllu ægir saman, heimastúlkum og heimangöngustúlkum, bæjarlífi og sveitarlífi, sem þó bæri lægra hlut.

Það, sem háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) drap á, að koma upp mörgum námsskeiðum, í staðinn fyrir sjerstakan skóla, verður örðugt að framkvæma, svo að í nokkru lagi sje. Til þess mundi þurfa svo margar útlærðar kenslukonur, og þær þurfa, sem kunnugt er, að sækja mentun sína til útlanda, og oft heltast þær úr lestinni, svo að fljótt mundi þær skorta. Það er því einmitt slíkur skóli, sem hjer ræðir um, sem er nauðsynlegur, meðal annars til þess að fjölga konum, sem færar væru um umgangskensluna. Og hún hefir reynst ágætlega erlendis.