30.08.1917
Neðri deild: 47. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1865 í B-deild Alþingistíðinda. (1830)

66. mál, gjöld til holræsa og gangstétta á Akureyri

Frsm. (Einar Árnason):

Aðalefni frv. þessa er sjermál bæjarfjelags þess, er hjer á hlut að máli, og að því leyti ætti ekki að vera neitt á móti því, að það gengi hjer fram, einkum þar sem engum mun blandast hugur um, að hjer sje að ræða um framfaramál fyrir bæinn. Það mun alment viðurkent, hversu góð vatnsveita ásamt fullkominni fráræslu er nauðsynleg fyrir þrifnað og gott heilsufar í bæjum. Nú hafa Akureyringar þegar fengið vatnsveituna, en holræsin vantar. Fer því bæjarstjórnin á Akureyri fram á að mega leggja skatt á hús og lóðir í bænum til að hrinda holræsagerðinni áleiðis. Staðhættir eru þar þannig, að allkostnaðar samt mun verða að leggja gangstjettir og holræsi um bæinn, og hefir bæjarstjórninni sýnst vænlegast að koma verkinu í framkvæmd á þann hátt, er frv. greinir.

Nefndin hefir sjerstaklega athugað það atriði málsins, hvort hlutaðeigandi stjórnarvöldum væri ekki veitt ofmikið vald með ákvæðum frv., og hvort þau mundu geta leitt til þess, að einstakir bæjarbúar yrðu beittir ójöfnuði eða þeim sýnd harðdrægni. En af því að reglugerð sú, sem samin verður um skattaálagninguna, á að liggja undir samþykki stjórnarráðsins, áleit nefndin, að á því gæti engin hætta verið, og leggur því eindregið til, að frv. sje samþykt óbreytt.