14.08.1917
Neðri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 600 í B-deild Alþingistíðinda. (184)

2. mál, fjáraukalög 1914 og 1915

Þá vil jeg fara sjerstaklega nokkrum orðum um 2. brtt. á þgskj. 388, um kostnaðinn við aukaþingið 1914. Nefndin tók þennan lið upp af því, að yfirskoðunarmenn gerðu tillögu um það, og af því að nefndin vildi, að það kæmi til umræðu í deildinni og álíta, í eitt skifti fyrir öll, hvort aukakostnað við Alþingi skuli taka upp í fjáraukalög eða ekki. Stjórnin vísaði því frá sjer til forsetanna, en yfirskoðunarmennirnir gerðu tillögu um, að upphæðin væri tekin upp. Úr því að svona var ástatt, þá varð fjárhagsnefndin ásátt um að senda fyrirspurn til forsetanna um þetta atriði. Svar forsetanna ætlaðist nefndin svo til að kæmi til umræðu um leið. Forsetarnir hafa nú svarað þessari fyrirspurn með brjefi, sem jeg, með leyfi hæstv. forseta, ætla að lesa upp, til þess að deildin geti áttað sig á svarinu, Brjefið er á þessa leið:

Alþingi.

Reykjavík, 11. ágúst 1917.

Háttvirt fjárhagsnefnd Nd. hefir í brjefi, dags. í dag, leitað álits vors um það, hvort taka beri upp í fjáraukalög fyrir 1914 og 1915 kostnað við aukaþingið 1914.

Það er álit vort, að Alþingi beri aldrei að beiðast aukafjárveitingar fyrir aukaþingskostnaði, eða yfirleitt neinum umframgreiðslum á alþingiskostnaði, enda hefir það ekki tíðkast.

Er svo að sjá, sem yfirskoðunarmenn landsreikninganna 1914 hafi ekki gætt þess, að Alþingi er frjálst að verja svo miklu fje sem þörf krefur til þingkostnaðar; það er ekki háð neinu eftirliti af hálfu landsstjórnar; löggjafarvaldið lýtur ekki framkvæmdarvaldinu; ef þingkostnaður fer fram úr því, sem áætlað er í fjárlögum, þá leitar Alþingi aldrei samþykkis stjórnarinnar til umframgreiðslu, þarf þess ekki, á ekki að gera það. Þann umframkostnað ber að taka upp í lög um samþykt á landsreikningnum, aldrei beiðast aukafjárveitingar; sjálft fjárveitingavaldið þarf ekki og á ekki að beiðast aukafjárveitingar til umframgreiðslu á starfskostnaði sínum.

Alþingi ber að vernda sjálfstæði sitt gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Alþingi þarf ekki, og á ekki, að gera landsstjórninni nein reikningsskil á starfskostnaði sínum, og hefir aldrei gert það.

Yfirskoðunarmenn landsreikninga verða að gera sjer ljóst, að þeir eiga við tvo reikningsaðilja, annars vegar landsstjórnina, sem afhendir þeim þá eiginlegu landsreikninga, og hins vegar Alþingi, sem sendir þeim þingkostnaðarreikningana til yfirlits, annars vegar ráðherrana og skrifstofustjóra stjórnarráðsins, hins vegar alþingisforsetana og skrifstofustjóra þingsins. Hvorirtveggja þessara aðilja, ráðherrarnir og forsetarnir, bera ábyrgð gagnvart Alþingi á reikningsskilum sínum. En komi til umframgreiðslu, er munurinn sá, að þar er landsstjórnin undir þingið gefin, verður að beiðast aukafjárveitingar, en þingið sjálfstætt, þarf þess ekki.

Oss er ljóst, að það er einungis vegna athugasemdar yfirskoðunarmanna, að háttv. fjárhagsnefnd hefir borið upp breytingartillögu sína á þgskj. 388 [2]. Og vjer erum þess fullvissir, að háttv. fjárhagsnefndarmenn munu allir fallast á þessar röksemdir vorar, taka breytingartillöguna aftur og gera háttvirtri neðri deild, í eitt skifti fyrir öll, ljósa grein fyrir þessu fjárhagsmálefni.

Kristinn Daníelsson.

G. Björnson.

Olafur Briem.

Með skírskotun til þessa álits hæstv. forseta tekur fjárhagsnefnd aftur þessa brtt. á þgskj. 388 [2], með því að hún felst á öll aðalatriðin í röksemdaleiðslu forsetanna. Með þessu þykist nefndin hafa náð tilgangi sínum með brtt., þar sem álit forsetanna liggur nú fyrir, og menn geta rætt um þessa niðurstöðu, þótt brtt. sje tekin aftur. Greinatalan breytist að sjálfsögðu við það, að þessi brtt. er tekin aftur, og sömuleiðis höfuðtalan í 1. brtt.

Jeg finn enga ástæðu til að taka fleira fram í sambandi við brtt. nefndarinnar, nje gera frekari grein en stendur í nál. fyrir hverri einstakri brtt., en geri það þó síðar, ef þörf gerist.