14.08.1917
Neðri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 608 í B-deild Alþingistíðinda. (186)

2. mál, fjáraukalög 1914 og 1915

Frsm. (Gísli Sveinsson):

Menn hafa nú heyrt álit hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) og hlustað á svör hans við athugasemdum nefndarinnar og brtt. Jeg veit ekki, hvort menn eru hrifnir af þeim eða ekki. En hitt er víst, að nefndin hefir gengið gegnum öll gögn, sem að frv. lúta, og myndað sjer grundvallaða skoðun samkvæmt þeim. Því er það, að mig furðar á þeim tón, sem hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) leyfði sjer að tala í, og hversu hann var »staffírugur« í að mæla á móti því, sem stjórnin og hann sjálfur hafa viðurkent að væri rjett. Við nánari athugun þarf þó raunar engan að furða á slíku, þar sem það er bert, að stjórnin sjálf, eða hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) að minsta kosti, hefir ekki hugmynd um, hvað felst í frv., sem hún hefir lagt fyrir þingið, eins og 4. d. hefir komið fram í þessu frv., fjáraukalagafrv.

Hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) gat þess, að fjárlögin væru að eins áætlun. Það er alveg rjett, enda kemur engum til hugar að vita það, þótt greiðslur hafi farið fram úr áætlun; öðru nær. Hitt er athugavert, þegar stjórnin vill ekki á formlega rjettan hátt gera grein fyrir, eða taka upp í aukafjárlög, ýmsar umfangsmiklar greiðslur, þar sem það er þó formsins mál og formsins skylda að taka umframgreiðslur upp í aukafjárlög. Þegar yfirskoðunarmenn og fjárhagsnefnd telja bresta formlega samþykt til fjárveitingar, þá er skylt að taka greiðsluna upp í aukafjárlög. En með þessu er þó engan veginn verið að víta stjórnina, nema því að eins, að einhver greiðslan sje svo löguð, að stjórnin hljóti að sæta ábyrgð fyrir hana. En frá formsins hlið er það vítavert, að það hefir ekki verið tekið upp, sem átt hefði að taka, og stjórnin hefir vitað eða fengið að vita hjá yfirskoðunarmönnum.

Þess vegna kemur það ekkert þessu máli við, hvað Kristján justitiarius Jónsson eða aðrir álíta, hvort þeir segja, að taka þurfi upp í aukafjárlög umframgreiðslur eða ekki. Fyrir þessu eru fastar reglur; allar umframgreiðslur, sem framkvæmdarstjórnin hefir með höndum, eiga að fá formlega samþykt þingsins eftir á. Og engin stjórn ætti að hafa neitt að athuga við þetta; engri stjórn ætti að vera akkur í fjárgreiðslum, sem hún vill ekki fá formlega samþyktar eftir á. Því að þetta heimtar formið.

Þegar þetta er athugað, þá er það undarlegt, að hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) skuli taka sjer nærri brtt. nefndarinnar. Það sýnir, að hann er ekki orðinn vanur við að sitja í stjórnarsessinum, eða einhver hefir leiðbeint honum, sem ekki hefir kunnugleika eða vit á þessum málum.

Út af spítölunum ljet hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) þess getið, að óþarft væri að leita aukafjárveitingar, svo framarlega sem greiðslurnar, bæði árin til samans, hefðu ekki farið fram úr fjárveitingunni á fjárhagstímabilinu, jafnvel þótt fjárgreiðslan hafi orðið hærri annað árið. Það getur nú verið spurning um, hvort ekki beri að leita aukafjárveitingar alt um það, enda er stjórnin ekki vítt fyrir þetta, en yfirskoðunarmennirnir vilja fá upphæðirnar inn í aukafjárlögin, þegar greiðslan bæði árin fer fram úr fjárveiting, eins og einmitt hjer á sjer stað, og ætti stjórnin síður en svo að vera hrædd við að verða við því, með því að það er að eins reglan, sem krefst þess.

Í annan stað gat hæstv. fjármálaráðherra (B. K) þess, að þótt stjórnin hafi lofað yfirskoðunarmönnunum að taka umframgreiðslur upp í aukafjárl. 1915, þá hafi hún ekki getað það, með því að frv. lá í Kaupmannahöfn. En hví er þá stjórnin að lofa því, sem hún efnir ekki? Hví lofar hún að leiðrjetta sumt beinlínis og sumt með því að vísa til yfirskoðunarmanna, úr því að frv. var í Kaupmannahöfn? (B. K.: Þetta er rangt). Nei, allir þm. geta gengið úr skugga um það, að þetta er rjett, ef þeir vilja kynna sjer gögnin, þótt leitað sje á mörgum stöðum, í landsreikningi, athugasemdum yfirskoðunarmanna, svörum stjórnarinnar o. s. frv.

Þá kem jeg að brtt. Hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) telur þær brtt. rangar, sem miðaðar eru við aðalupphæðirnar. Þetta er gersamlega rangt, því að þótt honum þyki eitthvað rangt í hinum einstöku brtt., þá kemur auðvitað samlagningin fram í aðalupphæðinni eftir hinum einstöku liðum.

2. brtt. nefndarinnar þarfnast engrar athugasemdar, því að nefndin hefir tekið hana aftur, ekki af tilhliðrun við hæstv. fjármálaráðherra (B. K.), heldur af því, að nefndinni þótti nægja, að hún kæmi til umræðu og álit forseta fengist um hana, sem nú er komið.

Um 3. brtt. ljet hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) svo mælt, að ekki væri ástæða til að taka hana til greina, með því að lagaheimild væri fyrir greiðslunni. En nú vita allir, að lagaheimildin er að eins fyrir ákveðinni upphæð, en heimild vantar fyrir umframgreiðslunni, sem formlega verður að koma fram í aukafjárlögum. Þess vegna á ekki að fella brtt., heldur að fullnægja formlegri reglu og samþykkja hana.

Hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) taldi brtt. nefndarinnar 4, a. ranga alveg að ófyrirsynju, því að vitanlega fer hún, sem hefir að geyma aðalupphæðina, eftir því, sem upphæðir eru í einstökum liðum.

Brtt. 4, b. taldi hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) enn ranga; þar er um að ræða 400 kr. póstleigu í Bárunni. Ekki skil jeg, hví hann telur hana ranga. Ef menn vilja fletta upp landsreikningnum, munu menn sjá, að yfirskoðunarmenn töldu hjer vera um umframgreiðslu að ræða; stjórnin komst að sömu niðurstöðu og lofar að leita aukafjárveitingar. Mundi hún hafa lofað því ef hún hefði talið það rangt? Ólíklegt væri það, enda varð niðurstaða nefndarinnar sú sama. Þessi loforð stjórnarinnar eru ekki efnd í framkvæmdinni, en úr því að hún viðurkennir athugasemdir yfirskoðunarmannanna í svörum sínum, þá hefði mátt búast við lagfæringum frá stjórninni í samræmi við stjórnina sjálfa.

Það er rjett, að brtt. nefndarinnar 4, c. er leiðrjetting á prentvillu, að því er ætla verður. Það er leiðinlegt, að þessi mikilvægu frv. stjórnarinnar, sem varla má hagga við, skuli vera svo úr garði gerð í stjórnarráðinu, að meinlegar prentvillur sjeu í þeim, svo að stafl. verða skakkir.

Brtt. nefndarinnar 4, d. hefir stjórnin viðurkent. Sama er að segja um 4, e.

Brtt. nefndarinnar 4, f. telur hæstv. fjármálaráðh. (B.K ) ranga. Yfirskoðunarmenn komust að þeirri niðurstöðu, að hjer væri skakki, sem næmi kr. 13,90. Stjórnin svarar því svo, að hún viðurkennir þetta og segist munu leita aukafjárveitingar á þessari upphæð. En hvað gerir hún? Hún leitar aukafjárveitingar, ekki á kr. 13,90, heldur á kr. 11,05, að því er hæstv. ráðh (B. K.) segir nú, af því að hún eigi einhversstaðar í pokahorninu kr. 2,85 til að fylla upp í. En hver veit um það? Niðurstaða nefndarinnar er rjett samkvæmt þeim gögnum, sem fram hafa komið, bæði fyrir yfirskoðunarmenn, þing og fjárhagsnefnd.

Um brtt. nefndarinnar 4, g. er það að segja, að stjórnin taldi þann lið ekki eingöngu rjettan, heldur kveðst hún mundu leita aukafjárveitingar á honum, sem yfirskoðunarmenn auðvitað taka trúanlegt, en stjórnin þó efnir ekki. Vitanlega hlýtur nefndin hjer að hallast að því, sem yfirskoðunarmenn hafa fundið rjett vera og stjórnin viðurkent. Ef hún nú telur það rangt, þá á hún það við sjálfa sig. Eftir þeim gögnum, sem fyrir liggja, er brtt. rjett.

Um brtt. nefndarinnar 5, a. er auðvitað sama að segja sem ella um aðalupphæðir, að þær breytast eftir hinum einstöku liðum, eftir því sem þingið samþykkir.

Brtt. nefndarinnar 5, b. er svo til komin, að skakkar um 129 kr., sem stjórnin lofar að leita aukafjárveitingar á, en gerir ekki, eða rjettara sagt smellir undir alt annan lið en rjett er. Þetta fje er fyrir tímakenslu við Akureyrarskólann, en stjórnin leggur fjárveitinguna undir bækur og kensluáhöld, og ekki nóg með það, þessi fjárgreiðsla, sem fram fór 1915, er hjá stjórninni látin á alt annað ár, á árið 1914, og með rangri upphæð, sbr. 5, c. Stjórnin getur auðvitað sagt, að sjer hafi skotist yfir þetta, en þá ætti hún að vera að minsta kosti bljúgari í tilsvörum og ekki setja sig á þann háa hest, sem hún gerir, er um rjettmætar leiðbeiningar er að ræða.

Brtt. nefndarinnar 5, d. og 5, e. játar hæstv. fjármálaráðh. (B. K.) að sjeu rjettar.

Brtt. nefndarinnar 5, f. telur hæstv. fjármálaráðh.(B. K.) nú ranga, en í svörunum til yfirskoðunarmanna lofar hann að taka liðinn í fjáraukalög, en gerir það ekki. Hjer reynist sem áður, að stjórnin játar, að atriði sje rjett, en telur það svo rangt eftir á. Hjer átti að sjálfsögðu að leita aukafjárveitingar, og mundi stjórnin sjálfsagt fallast á það, ef hún athugaði það í ró og næði, en nú í flaustrinu er »öllu snúið öfugt þó«.

Brtt. 5, g. virðist stjórnin telja rjetta, en segir þó, að nóg fje hafi verið til þessarar greiðslu. En stjórnin hafði enga heimild til að nota þetta fje á þann hátt, sem hún gerði, því að fjeð var ætlað lýðskólum utan Reykjavíkur og Akureyrar, en stjórnin tekur þar af 200 kr. til hannyrðaskólans á Akureyri. Hjer er ekki um stóra upphæð að ræða, og nefndin vítir stjórnina ekki fyrir þessa greiðslu, en hjer brestur formlega samþykt, því að vitaskuld hefir þingið aldrei ætlast til þess, að fjárveiting til lýðskóla utan Reykjavíkur og Akureyrar sje notuð til hannyrðaskóla á Akureyri. Stjórnin ætti að vera þakklát fyrir þessa lagfæringu nefndarinnar, sem að eins leggur hjer til, að leitað sje aukafjárveitingar.

6. brtt. nefndarinnar telur hæstv. fjármálaráðh. (B. K.) rjetta, eins og vera ber.

Jeg býst við, að ef hv. þm. hafa haft tök á að fylgjast með og fletta upp á viðeigandi stöðum í landsreikningnum, eftir því, sem nefndarálitið vísar til við hverja einstaka brtt., þá muni þeir alveg hafa komist að sömu niðurstöðu sem nefndin og stjórnin hafði komist, er hún athugaði málin í næði heima hjá sjer.

Um brtt. hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) er það að segja, að hann mun hafa komið fram með hana af því, að honum var bent á villuna, en það er leiðinlegt, að hann skuli þá ekki hafa leiðrjett hinn liðinn líka, sem stóð við hliðina, jafnauðsæja leiðrjettingu, sem þar er um að ræða; þetta er sem sje kostnaður við fánanefnd og baðstofu á Kvennabrekku. Þetta hefir þegar verið samþykt í fyrri fjáraukalögum, fyrir 1914 og 1915, sem Alþingi 1915 afgreiddi, og eru því liðirnir óþarfir, eins og brtt. á þgskj. 426 gefur til kynna.

Að svo stöddu þarf jeg ekki að fara fleiri orðum um frv. eða brtt, Það getur verið, að hæstv. fjármálaráðh. (B. K.) standi upp til þess að slá því föstu, að rjett sje rangt og rangt rjett, en jeg býst samt við, að látið verði sitja við það form, sem öll gögn benda til að sje rjett.