27.07.1917
Efri deild: 16. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1880 í B-deild Alþingistíðinda. (1863)

82. mál, skipun prestakalla

Frsm. (Kristinn Daníelsson); Eins og flestum er kunnugt er í lögunum um skipun prestakalla allmörg prestaköll ákveðin, sem lítt þykir fært að einn prestur geti þjónað. Það var eðlilegt, að svo gæti tekist til, er skipa átti í einu fyrir um þetta á öllu landinu, og auðvitað eru skiftar skoðanir um sumt. En um sum prestaköll eru varla skiftar skoðanir, að ókleift er að þjóna þeim, og þar á meðal er þetta. Sameiningin á þessum stað er að vísu ekki enn komin á, en söfnuðirnir vilja fyrirfram fyrirbyggja, að hún komist í framkvæmd, og synodus hefir einnig lagt það til.

Nefndinni kom einnig saman um, að þetta sje alls ekki framkvæmanlegt, að gera alt þetta svæði, frá Einarslóni að Haffjarðará, að einu prestakalli. Það er hjer um bil ¾ af suðurströnd Snæfellsness. Nefndin hefir þess vegna fallist á frv. og ræður háttv. deild til að samþykkja það, með þeim breytingum, sem hún hefir gert á því í nefndaráliti sínu. Jeg skal þess vegna ekki fjölyrða frekar um málið, en leyfi mjer að skírskota til greinargerðarinnar með frv.

Breytingarnar, sem þar er farið fram á, eru, að 1. gr. frumvarpsins sje skift í tvær greinir, samkvæmt greinaskiftingu í lögunum sjálfum, og að 3. grein falli burt. Nefndinni þótti óþarft, vegna þessarar litlu breytingar, að prenta upp sjálf lögin, sem eru alllöng.