10.08.1917
Neðri deild: 30. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1885 í B-deild Alþingistíðinda. (1874)

82. mál, skipun prestakalla

Frsm. (Einar Jónsson):

Mjer finst, að þeir tveir hv. þm. (J. M. og J. J.), sem hafa talað, hafi misskilið frv. dálítið. Mjer virtist þeir halda, að hjer væri um fjölgun presta, frá því sem nú er, að ræða, en svo er ekki, heldur er um það að ræða, að þeir verði eins margir eins og þeir nú eru, með öðrum orðum, að prestum verði ekki fækkað.

Má vera, að ekki sje um líf og heilsu að ræða, þótt ekki verði náð í prest. En jeg hygg þó, að trúarlíf myndi dofna, ef prestum eru fengin svo stór köll, að þeim verði alveg ókleift að rækja skyldu sína gagnvart miklum hluta sóknarbarna sinna. Svo framarlega sem kristindómur á að haldast í landinu, verður að koma í veg fyrir, að svo verði. Jeg gat í fyrri ræðu minni um vegalengdirnar, sem hjer er um að ræða. Jeg sagði, að vegalengdin eftir einu prestakallinum, ef 3 prestaköll ættu að verða á þessu svæði, myndi verða söm og frá Reykjavík alla leið austur í Skálholt, eða austur að Ægisíðu. Við skulum segja, að prestur, sem ætti að þjóna Reykjavík, sæti austur við Ölfusá. Hvernig færi fyrir prestinum, ef hann hitti á vont veður, eða ef það væri aldraður maður? En það á sjer oft stað, að aldraður prestur er betur metinn en ungur og frakkur ferðamaður. Gömlu mönnunum eru menn vanastir, og þá vilja menn síst missa, sjeu þeir vel kyntir. Það sjá allir, að svona leið væri ómöguleg fyrir aldraðan mann.

Hjer er yfir höfuð öðru máli að gegna en þótt einhver kæmi fram með beiðni um fjölgun prestakalla. Hjer er ekki farið fram á neitt slíkt. Það mun vera örðugt að sýna fram á, að til sje nokkurt annað jafnstórt prestakall á landinu, ef eigi verður tekið til greina það, sem frv. þetta fer fram á. En jeg vænti svo góðs af háttv. deild, að hún leyfi frv. að fá framgang.

Háttv. 1. þm. N.-M. (J. J.) þykir nál. ófullnægjandi, þar sem það sje ekki nema einar tvær línur. Það er satt, að lengra er það ekki. En jeg fann enga ástæðu til að fara að semja lengra nál. en háttv. Ed. ljet sjer nægja með; henni hefði staðið það nær að semja lengra nál., ef henni hefði þótt þess þurfa, og nefndin í hv. Ed. var kunnugri öllum málavöxtum en jeg. En henni hefir sjálfsagt fundist, eins og mjer, að greinargerðin fyrir frv. væri svo glögg og góð, að hún gæti komið í staðinn fyrir nál.