14.08.1917
Neðri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 617 í B-deild Alþingistíðinda. (188)

2. mál, fjáraukalög 1914 og 1915

Matthías Ólafsson:

Jeg vil leyfa mjer að minnast fám orðum á álit hæstv. alþingisforseta um það, hvort taka ætti kostnaðinn við aukaþingið 1914 upp í fjáraukalög eða ekki. Það er rjett, að þingið hefir fult fjárveitingavald, og varð að sjálfsögðu að borga út kostnaðinn við þinghaldið eftir boði og tilætlun þingsins. Eigi að síður tel jeg rjettara, að kostnaðurinn sje tekinn inn í fjáraukalög. Stjórnarskráin segir í 27. gr.; »Ekkert gjald má greiða af hendi nema heimild sje til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum«. Jeg skil ekki, hví verið er að skirrast við að taka þetta upp í fjáraukalög. Ekki þarf að óttast, að nokkur hafi á móti, að kostnaðurinn sje greiddur. Þá er ágreiningur um það, hvort leita þurfi aukafjárveitingar á upphæðum, sem greiddar eru umfram veitingu á öðru ári fjárhagstímabilsins, ef þær hafa sparast á sama lið hitt árið. Um það verð jeg að segja; að ákveðin upphæð er veitt í fjárlögunum hvort árið um sig, og hvort árið út af fyrir sig er sjerstakt reikningsár. Það mun því hæpið að halda því fram, að slíkar umframgreiðslur þurfi ekki að taka upp í fjáraukalög. Hvað ættu yfirskoðunarmenn að segja, ef þeir sæju, að umframgreiðsla hefði orðið á einhverjum lið fyrra árið? Ættu þeir að þegja við því, eða ættu þeir að láta sjer nægja það svar stjórnarinnar að þeir skyldu bíða og sjá, hvernig fær seinna árið? Jeg álít rjett að taka allar slíkar upphæðir inn í fjáraukalög, en hins vegar teldi jeg það þing óbilgjarnt, sem álasaði stjórninni fyrir það, þótt hún greiði ekki sömu upphæð hvort árið, sem fjárlögin nefna, þegar þörf krefur, að eins að hún greiði ekki meira en þá upphæð, sem veitt er bæði árin.

Jeg verð að segja það, að það, sem fyrir fjárhagsnefndinni lá af upplýsingum, gat, frá mínu sjónarmiði, ekki leitt til annara úrskurða en hún feldi um hina einstöku liði. Hún hafði fyrir sjer bæði athugasemdir yfirskoðunarmanna landsreikninganna og svör stjórnarinnar, og eftir því hefir hún farið,

Hitt er annað mál, að hefði stjórnin beðið með að svara athugasemdum við landsreikninginn 1914 þangað til hún sá athugasemdir við reikninginn 1915, þá mundu svör hennar líklega hafa í sumum greinum orðið öðruvísi en þau nú eru.