25.07.1917
Efri deild: 14. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1889 í B-deild Alþingistíðinda. (1882)

91. mál, manntal í Reykjavík

Flm. (Kristinn Daníelsson):

Mig langar að biðja hv. deild að taka þessu frv. vel. Það er að vísu ekki stórmál, sem hjer er um að ræða, en þó áríðandi á sínu sviði. Þegar því var ljett af prestunum hjer í Reykjavík, með lögum 1901, að taka manntalið, var þeim þó gert að skyldu að halda sálnaregistur eftir sem áður.

En það hlaut að verða kák eitt og hálfverknaður, og er furða, að þetta skuli hafa haldist fram á þennan dag. En betra er seint en aldrei, og er nú svo komið, að menn finna, að ekki má við svo búið standa lengur.

Málið er hingað komið að tilhlutun hagstofunnar og prestanna, og gerðist jeg flutnm. þess, meðal annars af því, að jeg hefi, sem prófastur, verið við það riðinn og tekið á móti skýrslum prestanna. Komu þær altaf mjög miklu seinna en vera átti, og frá fríkirkjuprestinum fylgdi jafnvel sú athugasemd, að ekki væri hægt að ábyrgjast áreiðanleik skýrslnanna.

Hjer eru fleiri söfnuðir. En manntalinu er ekki skift eftir því, og verða prestarnir því að vinna úr skýrslunum og greina sundur, og er þá mjög hætt við, að ruglingur geti á komist. En ótækt má það heita, að slíkar skýrslur sjeu ver úr garði gerðar hjer í sjálfum höfuðstaðnum en úti um sveitir.

Aðalatriðið er því það að losa prestana við að halda sálnaregistur, með því að það er í raun og veru ofætlun, þar sem þeir eru svo mörgum störfum hlaðnir, en verkið er seinlegt og getur aldrei orðið svo vel af hendi leyst, sem skyldi. Í öðru lagi er farið fram á, að hagstofan fái árlega eftirrit af manntalsskýrslunum til að vinna úr, og er mjer kunnugt um, að hún er fús á að taka verkið að sjer.

Vona jeg svo, að háttv. deild taki máli þessu vel og leyfi því að ganga til 2. umr.