27.07.1917
Efri deild: 16. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1891 í B-deild Alþingistíðinda. (1887)

91. mál, manntal í Reykjavík

Forsætisráðherra (J. M.):

Það getur vel verið, eins og nú er, að hægt sje að láta þetta afrit í tje, en jeg veit, að borgarstjóri hefir haft í hyggju að breyta algerlega um manntalið, þannig að það væri á spjaldskrám; það kostar ærið fje, bæði spjöldin og svo að leiðrjetta spjöldin, því að það þarf að gera á ári hverju, og býst jeg við, að þetta verði að gera í næstu framtíð, og þá er það orðin talsverð kvöð á bænum að láta hagstofunni í tje afrit af manntalinu endurgjaldslaust.

Hvað því viðvíkur, að hagstofan vinni úr manntalinu, svo að það geti verið að gagni fyrir bæinn, þá er jeg hræddur um, að það eigi nokkuð langt í land, að hagstofan hafi tíma til þess. Og varla getur það komið til mála að láta hagstofunni árlega í tje afrit af spjaldskránni.

Það er alveg rjett hjá háttv. flm. (K. D.), að deilan milli okkar er að eins um það, hvort bærinn eigi að láta í tje afritið endurgjaldslaust eða eigi. Sú krafa finst mjer vera ósanngjörn, og því vil jeg skjóta því til háttv. flm. (K. D.), hvort hann vilji ekki breyta þessu við 3. umræðu.