14.08.1917
Neðri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 619 í B-deild Alþingistíðinda. (189)

2. mál, fjáraukalög 1914 og 1915

Magnús Guðmundsson:

Jeg stend upp til að bera ofurlítið blak af fjárhagsnefnd, sem orðið hefir fyrir hörðum ákúrum af hæstv. fjármálaráðherra (B. K.). Jeg vona, að háttv. deild sjái, að ekki er við að búast, að fjárhagsnefnd geti rannsakað hvert einstakt atriði í landsreikningunum ofan í kjölinn; hún getur yfirleitt ekki farið eftir öðru en athugasemdum yfirskoðunarmanna og svörum stjórnarinnar; á þessu verður hún mestmegnis að byggja rannsókn sína og tillögur. Til þess gera yfirskoðunarmenn athugasemdir sínar, og til þess svarar stjórnin þeim.

Þegar litið er yfir þessar athugasemdir, þá sjest það, að yfirskoðunarmenn hafa á nokkrum stöðum gert tillögur um, að leitað sje aukafjárveitingar fyrir greiddum upphæðum; og stjórnin hefir svarað því, að annaðhvort muni hún gera það, eða væntanlega muni gera það, en þó oft ekki gert það.

Jeg vona, að hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) sje svo sanngjarn, að hann sjái og viðurkenni, að ekki gat nefndin vitað, að stjórnin ljeti vera að efna þessi loforð sín af því, að fje hafði sparast jafnmikið eða meira 1915 en fyrirframgreiðslunni 1914 nam, og að hún áleit því aukafjárveitingu óþarfa. Það getur verið að aukafjárveiting sje ekki nauðsynleg, þegar svo stendur á, en eftir því, sem gögn og skilríki lágu fyrir, gat fjárhagsnefnd ekki öðruvísi að farið en hún gerði. Því að hún hefir ekki fyrir sjer hina einstöku reikninga, heldur að eins athugasemdir, svör og tillögur. Hina einstöku reikninga rannsakar hún að eins þegar ágreiningur er milli stjórnar og yfirskoðunarmanna, en í þeim atriðum, sem hjer er ágreiningur um, var engin deila milli stjórnar og yfirskoðunarmanna.

Jeg skal benda á, að þeir, sem vilja mynda sjer glögga skoðun á deiluefninu milli háttv. frsm. (G. Sv.) og hæstv. fjármálaráðh. (B. K.) þurfa ekki annað en fletta upp í landsreikningunum þeim liðum, sem bent er á í nál. á þgskj. 387. Með því getur hver einstakur þingdm. dæmt um athugasemdir þær og svör þau, sem þar liggja fyrir og tillögur nefndarinnar.

Um 3. brtt. sje jeg ekki ástæðu til að fjölyrða; mjer liggur í ljettu rúmi, hvort hún er samþykt eða ekki, en sje þó ekki ástæðu til að fella hana. Yfir höfuð hefi jeg fylgst með öllum umræðunum, nema jeg tók ekki eftir, hvort hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) viðurkendi, að brtt. 5. c. væri rjettmæt eða ekki. (Fjármálaráðherra B. K: Jeg viðurkendi hana rjetta).

Að lokum tek jeg það upp, að fjárhagsnefndin gat ekki farið öðruvísi að en hún gerði, og gerðir hennar eru rjettar.

En hæstv. stjórn átti að geta vitað, hvað sparast hafði á árinu 1915, þegar hún svaraði athugasemdunum fyrir árið 1914, og gat hagað svörum sínum eftir því, því að svör hennar við athugasemdir endurskoðenda eru ekki dagsett fyr en 23. nóv. 1916. Svör hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) um þetta eru því eigi á rökum bygð og beinlínis villandi.