27.07.1917
Efri deild: 16. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1897 í B-deild Alþingistíðinda. (1910)

96. mál, notkun hafna o. fl.

Frsm. (Kristinn Daníelsson):

Þetta litla frv. er í raun og veru ekki annað en lög nr. 62, 10. nóv. 1905, um heimild fyrir stjórnarráð Íslands til að setja reglugerðir um notkun hafna við kauptún í landinu o. fl., með lítils háttar breytingum, en lög þessi eru svo stutt, að sjávarútvegsnefndinni þótti rjettara að taka þessi lög upp öll heldur en gera breytingar við þau og hafa tvenn lög um sama efni.

Jeg vil að öðru leyti taka mjer í munn orð háttv. flutningsmanns þessa máls á Alþingi 1905: »Jeg ætla að vonast til þess, að frv. verði lofað að ganga gegnum deildina umræðulítið og án nefndar«. Þessi von flutningsmannsins rættist svo, að alt málið tók 1 bls. í þingtíðindunum með öllum atkvæðagreiðslum og umræðum. (Atvinnumálaráðherra: Það má þá ekki tala lengur!)

Tilgangur þessa frv. er að tryggja nokkru betur en nú er hagsmuni útgerðarmanna í kaupstöðum og veiðistöðum. Lögin 1905 voru aðallega gerð vegna Siglufjarðar, til þess að tryggja, að eigendur hafna og hafnartækja gætu fengið gjald fyrir notkun þeirra. En síðan þau voru sett hefir sjávarútvegurinn þroskast stórum, og hjer er kominn upp mikill mótorbátaútvegur; það er því nauðsynlegt að tryggja líka hagsmuni útgerðarmanna nú. Það er með þetta fyrir augum, að sjávarútvegsnefndin ber fram þetta frv., og þar sem Alþingi hefir áður sýnt mikinn áhuga á að bæta mótorbátahafnir, þá vænti jeg, að það taki þessu frumvarpi vel, því að það þarf að sjá um, að þær notist sem best.

Breytingar þær, sem gerðar eru á lögunum, eru þær, að þetta nái ekki að eins til löggiltra hafna, heldur til allra hafna. Þetta hefir má ske ekki mikla þýðingu, þar sem flestar víkur og vogar landsins eru löggilt, en þó gæti hugsast, að enn þá væri einhver vík eða vogur ólöggilt, er væri góð höfn, og þá gæti þetta haft þýðingu.

Hin breytingin er viðbót við 2. gr., og miðar hún til þess, að þeir, sem höfnina nota, geti gert það fyrir ákveðið sanngjarnt verð.

Jeg sje ekki ástæðu til að fjölyrða meir um frv., en bið háttv. deild að láta það ná fram að ganga, svo að það taki ekki meira rúm en áður. (Atvinnumálaráðherra: Það er þegar orðið rúmfrekara!)