16.08.1917
Neðri deild: 35. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1900 í B-deild Alþingistíðinda. (1920)

96. mál, notkun hafna o. fl.

Frsm. (Pjetur Ottesen):

Þetta mál er hingað komið frá háttv. sjávarútvegsnefnd Ed. Það hefir gengið óbreytt gegnum Ed., og sjávarútvegsnefndin hjer í Nd. hefir athugað málið gaumgæfilega og orðið sammála um að mæla með því, að það verði samþykt óbreytt. Tilgangur þessa frv. er sá að tryggja betur hagsmuni útgerðarmanna kringum landið en hingað til hefir verið gert. Það hefir sem sje bólað talsvert á því upp á síðkastið, að einstakir menn, sem hafa ráð yfir höfnum eða lendingastöðum, hafa á ýmsan hátt þröngvað kostum þeirra, sem hafa orðið að leita á þeirra náðir, meir en góðu hófi gegnir. Þetta hefir verið því tilfinnanlegra nú upp á síðkastið, þar sem útgerð er nú að mestu breytt í mótorbátaútgerð úr smábátaútgerð, sem áður tíðkaðist. Því að, eins og mönnum er kunnugt, hagar sumstaðar, og það ekki óvíða, svo til, að það eru að eins fáir staðir, sem mótorbátar geta legið óhultir á, og hafa þeir því orðið að safnast margir saman á hvern stað. Þar sem svo einstakir menn hafa haft ráð yfir þessum stöðum í hendi sjer, eru þess dæmi, að þeir hafa notað aðstöðu sína með því að þröngva kosti útgerðarmanna á ýmsan hátt. Önnur grein þessara laga á að bæta úr þessu og koma í veg fyrir, að einstakir menn geti þannig fært sjer kringumstæðurnar í nyt, með því að setja útgerðarmönnum stólinn fyrir dyrnar og þröngva þeim til að ganga að ósanngjörnum kjörum, þar sem þeir eiga ekki í önnur hús að venda.

Ef þessar breytingar ná fram að ganga, ætti hagur útgerðarmanna yfirleitt að vera að þessu leyti betur trygður hjer eftir en hingað til.

Af því að hjer er um allþýðingarmikið mál að ræða, þá vona jeg, að hv. deild taki því vel og leyfi því að ganga fram óbreyttu.