30.07.1917
Efri deild: 17. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1905 í B-deild Alþingistíðinda. (1928)

106. mál, breyting á tilskipun og fátækralögum

Flm. (Eggert Pálsson):

Jeg skil vel athugasemdir hæstv. forsætisráðherra og hefi fyrir mitt leyti ekkert á móti þeirri stefnu, sem honum þykir ráðlegust, að ákveða presti eða sýslumanni að eins sektir fyrir að gefa saman hjón, er standa í óbættri sveitarskuld.

Jeg kannast fyllilega við, að það sje rjett, að ef kona, sem þiggur sveitarstyrk, giftist manni, sem ekki þiggur af sveit, þá sje engin ástæða fyrir sveit konunnar að æðrast, þar eð sveit konunnar getur ekkert við það tapað, heldur má ske miklu fremur grætt. En standi karlmaður í sveitarskuld og kvongist konu, sem einnig þiggur af sveit, er vel skiljanlegt, að sveit karlmannsins verði óánægð með það, að prestur skuli hafa gefið þau saman, og að hún búist við enn meiri þyngslum eftir en áður. Og jafnvel þótt konan hafi engan sveitarstyrk þegið, heldur að eins maðurinn, má telja líklegt, að sveit hans telji sjer það frekar til skaða en hagnaðar, að hann var gefinn saman í hjónaband. Er því engan veginn fráleit hugsun, að sveitin hafi endurgreiðslurjett á þeim styrk, sem karlmaðurinn hefir áður þegið. Annars geri jeg þetta ekki að neinu kappsmáli. Vænti þess, að þetta verði athugað í nefnd. En þar sem jeg lagði áðan til að vísa málinu til allsherjarnefndar, með því að í henni sætu tveir lögfræðingar, verð jeg að biðja afsökunar á því, að jeg mundi þá ekki svip eftir því, að mentamálanefnd hefir líka ráð á lögfræðingi og því ekkert til fyrirstöðu að vísa málinu til hennar. Fell jeg því frá tillögu minni um að vísa málinu til allsherjarnefndar.